Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 12:46:34 (371)


[12:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er fátt í ræðu hv. þm. sem ég vil gera athugasemdir við. Ég vil þó undirstrika það þannig að það komi skýrt fram að það voru ekki mín orð að skipta mönnum í eyðendur og

greiðendur. Það var önnur tveggja fyrirspurna í þætti sem ég tók þátt í í gær en hins vegar lýsir það kannski vel þessu máli með pistlahöfund Ríkisútvarpsins að mér skilst að hann hafi gert það að mínum orðum. Það kann kannski að vera einhver skýring á því hvernig farið hefur fyrir honum en ég hlusta aldrei á þessa pistla þess ágæta manns.
    Þetta er auðvitað aukaatriði málsins. Ég vil taka undir það sem hv. þm. sagði um það að tekjur fólks og kaupmáttur hefur breyst og við höfum kannski ekki brugðist nægilega skjótt við. Það hefur a.m.k. verið sjónarmið fjmrn. Þetta er ekki nýtt vandamál. Frá 1992 til 1994 hefur kaupmáttur að meðaltali skerðst hér á landi um 5%, þjóðartekjur hafa fallið um 5% og kaupmáttur skerst um 5%. Á árunum 1989 til 1991 féllu þjóðartekjur um 4% en kaupmátturinn var skertur um heil 12%. Þetta kerfi tók gildi með 6% nafnvöxtum árið 1990. Ég vek athygli á þessu vegna þess að þetta mál er ekkert nýtt. Þetta hefur ekkert komið upp núna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þetta er mál sem á sér rætur alveg frá upphafi kerfisins og það má ekki misskilja mín orð, að ég sé að gagnrýna hv. þm., ég er eingöngu að benda á að kaupmáttarskerðingin hefur gerst á löngum tíma og kannski hefur stjórn Húsnæðisstofnunar, því miður, ekki brugðist nægilega fljótt við eins og hún hefði átt að gera á undanförnum árum og ég veit að fyrrv. félmrh. getur staðfest það hér að það var stundum ekki nægilega skjótt brugðist við af hálfu stofnunarinnar.