Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 13:30:34 (375)

[13:30]

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er í tveimur meginþáttum. Annars vegar er um það að ræða að farið er fram á heimild til viðbótarútgjalda upp á 1.250 millj. kr. og hinn þátturinn snýr að húsbréfakerfinu.
    Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram á þessum morgni hafa menn einkum beint sjónum að húsbréfakerfinu en það er ekkert síður ástæða til þess að skoða svolítið fyrri þáttinn, ekki síst í ljósi þeirra lýsinga sem við höfum mátt hlusta á hér á hinu bjarta ástandi íslenskra efnahagsmála og þeirri yndislegu efnahagsstjórn sem hér hefur ráðið ríkjum að undanförnu, þá er nú ástæða til þess að skoða svolítið þennan þátt.
    Það sem hér er á ferð er, eins og ég nefndi, að það er verið að biðja um 1.250 millj. kr. aukafjárveitingu vegna þess að útgjöld ríkissjóðs hafa farið langt fram úr þeim heimildum sem veittar voru í fjárlögum. Þetta er skýrt í fjárlagafrv. á bls. 249 þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Útgjöld ríkissjóðs eru áætluð 117,6 milljarðar króna í stað 113,8 milljarða í fjárlögum 1994. Frávik frá fjárlögum eiga sér ýmsar skýringar. Aukin útgjöld til fjárfestingar nema rúmlega 1,5 milljörðum kr., einkum vegna nýrra ákvarðana ríkisstjórnar. Áhrif kjarasamninga og ákvarðanir ríkisstjórnar um eingreiðslur til lífeyrisþega nema nálægt 900 millj. kr.`` --- og nú bið ég hv. þm. að hlusta vel --- ,,og ýmis sparnaðaráform í fjárlögum sem ekki gengu eftir sem skyldi, einkum í heilbrigðisþjónustu, auka útgjöldin um 1,2 milljarða kr.``
    Þetta er nú hin dýrlega efnahagsstjórnun. Það hefur verið farið tæpa 4 milljarða fram úr fjárlögum. Þar auðvitað koma á móti meiri tekjur en reiknað hafði verið með þannig að útkoman eru þessar 1.250 millj. En ég tel rétt, virðulegi forseti, að vekja athygli á þessu að hér er auðvitað um það að ræða að efnahagsstjórnin hefur farið úr böndunum eins og á fyrri árum og auðvitað vekur það sérstaka athygli að sparnaðaráformin í heilbrrn. hafa ekki náð fram að ganga. Það hefur ekki náðst það sem þar átti að gera. Samt sem áður á enn og aftur að fara sömu leiðina, það á enn að gera heilbrrn. að spara svona eitthvað út í loftið án þess að það séu raunhæf áform eða raunhæfar áætlanir að baki. Þetta er auðvitað talnaleikur sem menn eru í og það er verið að reyna að sýna betri útkomu en ástæða er til að halda að náist fram að ganga. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að sá niðurskurður sem fyrirhugaður er í heilbrigðiskerfinu mun ekki ná fram að ganga nú frekar en á fyrri árum, jafnvel þó að menn séu að velta þar enn auknum byrðum yfir á sjúklinga eins og á að gera núna.
    Á bls. 250 í fjárlagafrv. er gerð grein fyrir þessum auknu útgjöldum og þar eru atriði sem mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. út í. Það var samþykkt . . .   ( Fjmrh.: Á hvaða blaðsíðu er þetta?) Á bls. 250, þar er tafla yfir þau útgjöld sem fóru fram úr áætlun, þ.e. þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið og reyndar ákvarðanir sem Alþingi tók. Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. út í ákvarðanir sem voru teknar hér í vor um aðstoð við Vestfirði upp á 300 millj. kr. Það hefur lítið verið minnst á það mál síðan þá og mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. hversu miklu af þessu fé hefur þegar verið ráðstafað og í hvað. Nú veit ég ekki hvort hann hefur þær upplýsingar hér undir höndum en það er auðvitað kominn tími til að fara að átta sig á því hvað orðið hefur um þessa aðstoð og hvort hún hefur á einhvern hátt skilað sér.
    Auðvitað vekur það athygli á þessum miklu niðurskurðar- og sparnaðartímum að 250 millj. er varið til húsnæðis fyrir utanrrn. á þessu ári og ég vil spyrja um skýringar á þessu. Er þetta fyrirhugaður flutningur í húsnæði Byggðastofnunar eða eru þetta breytingarnar á sendiráðunum erlendis sem þarna eru á ferð? Það vakna auðvitað spurningar um það hvort ekki megi fresta svona framkvæmdum þegar verið er að reyna að ná niður útgjöldum ríkisins.
    En það sem vekur þó mesta athygli eru þessi auknu útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Þetta eru útgjöld sem meira og minna eru fyrir séð. Síðan eru sett upp áform um að reyna að skera niður og spara en þegar á reynir er það auðvitað ekki hægt vegna þess að þetta eru lögbundin útgjöld.
    Ég ætla þá að víkja að seinni liðnum, þ.e. því sem snýr að húsbréfakerfinu. Eins og hér hefur komið fram þá er ástandið í húsbréfakerfinu nú með þeim hætti að það er vissulega ástæða til þess að fara að skoða það kerfi í heild og reyndar húsnæðiskerfið allt því það vekur athygli þegar maður fer í gegnum fjárlagafrv. og vekur spurningar í mínum huga hversu mikil umsvifin eru enn þá hjá Byggingarsjóði ríkisins. Ég held að við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort ekki sé kominn tími til þess að reyna að stokka Húsnæðisstofnun upp og reyna að draga þar úr þeim umsvifum sem þar eru. Bæði er það dýr rekstur og ég veit að Byggingarsjóður ríkisins er að taka lán til þess að standa undir afborgunum af eldri lánum og vöxtum en það hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki er hægt að koma þessu betur fyrir og draga úr umsvifum þessarar stofnunar. ( Gripið fram í: Sameina sjóðina.) Já, það var nú meiningin einmitt þegar verið var að fara í gegnum lögin um félagslega íbúðarkerfið og lánaflokkar voru fluttir á milli sjóða og lagðir niður og einfaldaðir að sjóðirnir yrðu sameinaðir en það hefur ekki verið gert.
    En þegar við komum að húsbréfakerfinu og þeim vanskilum sem hafa mikið verið til umræðu í morgun þá vil ég segja það sem mína skoðun að ég held að það hafi ekki verið staðið nógu vel að greiðslumati í húsbréfakerfinu. Ég þekki þess dæmi að fólk hefur fengið greiðslumat sem er svo fjarri veruleikanum að maður undrast slíkt. Að vísu er verið að gefa fólki til kynna hvað það getur mest leyft sér en ég held að þarna hafi verið farið heldur óvarlega sem m.a. leiðir af sér að þegar þrengir að í þjóðfélaginu getur fólk ekki staðið undir þessum lánum. Auðvitað eru það aðstæðurnar í þjóðfélaginu sem valda

mestu um þessi vanskil. En ég held að það sé ástæða til að skoða greiðslumatið og hvort ekki beri að herða það. En það leysir ekki vanda þeirra sem nú eiga í erfiðleikum. Þegar betur er skoðað þá eru það aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem eiga stóran hlut að máli eins og hækkun skatta. Við höfum séð hér úttekt á skuldastöðu heimilanna sem ber það með sér hvernig byrðarnar hafa aukist á heimilunum á meðan þeim hefur verið létt af fyrirtækjunum. Ríkisstjórnin á þarna stóran hlut að máli.
    Þegar húsbréfakerfið var sett á fót þá var það alveg ljóst að það væri aðeins ákveðinn hópur fólks sem réði við kjörin þar en það er nú svo skrýtið með Íslendinga að þeir eru ekki eins hrifnir af frjálshyggjunni og sumir aðrir og þau markaðslögmál sem áttu að gilda í húsbréfakerfinu hafa aldrei virkað og fólk hefur bara tekið lán og keypt íbúðir þótt allar aðstæður væru mjög óhagstæðar. Og á þessu hefur svo sem aldrei verið tekið í húsbréfakerfinu. En það var vitað frá upphafi að það væri fyrst og fremst ákveðinn hópur sem réði við þessi kaup, aðrir yrðu að vera á leigumarkaði eða í félagslega íbúðarkerfinu. Og ég vil vekja athygli á því að um leið og vanskil eru að aukast í húsbréfakerfinu og þar af leiðandi hugsanlega fleiri og fleiri sem missa sínar íbúðir er á sama tíma verið að skera niður í félagslega húsnæðiskerfinu. Þar á nú að fækka nýbyggðum íbúðum úr 500 í 400. Það er því líka verið að þrengja að á þeim markaði. Á þessu ber fyrrv. félmrh. ábyrgð eins og reyndar ýmsu öðru sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ákveðið.
    Þetta kann að skapa mikla erfiðleika á húsnæðismarkaðnum og er umhugsunarefni hvernig tekst hér á nokkurra ára fresti að búa til einhverjar stíflur og erfiðleika í húsnæðiskerfinu sem verða illviðráðanlegir. Ég skal alveg viðurkenna það enn einu sinni að ég átti sæti í þeirri nefnd sem samdi lögin um húsbréfakerfið og mér er mjög annt um þetta kerfi. Ég held að það hafi haft í för með sér heilmiklar úrbætur en það hefur ekki virkað alveg eins og það átti að gera. Það þarf að skoða þarna vissa þætti. En ef menn eru að fara út í sveigjanlegan lánstíma eða lengja lánstímann allt upp í 40 ár þá er þetta orðið svolítið annað en það átti að vera. Menn verða auðvitað að horfa á ástandið eins og það er og þær afleiðingar sem þessir miklu greiðsluerfiðleikar geta haft, bæði á fasteignamarkað og reyndar efnahagslífið í heild. Þetta þarf því allt að skoða.
    Hér hefur verið minnst á ríkisábyrgðina. Þegar þetta kerfi var í smíðum var það hugsunin að ríkisábyrgðin yrði til takmarkaðs tíma á meðan verið var að koma kerfinu á fót. Ég get tekið undir þau sjónarmið að það er ekkert eðlilegt að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir húsnæðismarkaðinn nánast eins og hann leggur sig. Þar á ábyrgð einstaklinganna að ráða ríkjum og bankakerfið á að koma þarna inn í líka. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að húsbréfakerfið eigi fyrst og fremst að vera í bankakerfinu en ekki í Húsnæðisstofnun. Ég held að það sé löngu orðið tímabært að skoða það. En það er búið að koma þessu kerfi fyrir innan stofnunarinnar. Þetta þarf allt að skoða í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Eins þá spurningu hvort það eigi að takmarka útgáfu á húsbréfum. Það var rætt um það í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á síðasta ári að reyna að takmarka útgáfu húsbréfa en nú kemur í ljós að þörfin fyrir þau hefur orðið mun meiri en menn áætluðu og þess vegna er þessi aukna lántaka hér tilkomin. Það er ekki gott þegar áætlanir standast ekki betur en þetta að það er þörf á mun fleiri húsbréfum en reiknað var með jafnframt því sem vanskilin á þeim aukast jafnt og þétt. Hér hefur verið bent á tölur í því sambandi sem ég ætla ekki að fara yfir aftur.
    Þannig er sem sagt ástandið. Annars vegar sjáum við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í hnotskurn þar sem alls ekki hefur tekist að halda utan um útgjöldin frekar en fyrri daginn. Sumt af því var fyrirséð og annað snertir ákvarðanir sem teknar hafa verið umfram fjárlög. Hins vegar er vandi húsbréfakerfisins sem við þurfum vissulega að ræða og skoða hér á hinu háa Alþingi. Ég vil taka undir að það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að hæstv. félmrh. skuli ekki láta sjá sig hér dögum saman og vikum saman þegar við erum að ræða um fjárlög íslenska ríkisins. Vonandi kemur hann til landsins fljótlega þannig að hægt verði að ræða þessi mál við hann. Við erum svo heppin að hafa hér líka fyrrv. félmrh. sem þekkir þessi mál vel og ber auðvitað, eins og ég nefndi áðan, ábyrgð á því hvernig komið er.