Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:20:47 (386)


[14:20]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þessi orðaskipti eru til í þingtíðindum og það væri þess virði að leita þeirra en ég sá að þessi síðustu orð komu mjög við hæstv. fjmrh. þannig að hér verða menn náttúrlega að sýna ákveðna nærgætni í samskiptum.
    Varðandi ríkisábyrgðina þá er ég alveg tilbúinn hvenær sem er að fara í málefnalega umræðu hvað það snertir og vissulega eru á henni bæði gallar og kostir. En ég sé ekki ef við lítum til lengri tíma hvernig ríkisábyrgð á húsbréf á að geta vegið upp mismunandi markaðsverð fasteigna og ýmis áföll sem á þeim vettvangi kunna að verða. Það gerist ekkert öðruvísi en á þann hátt að þau áföll falli á ríkissjóð. Og hverjir koma þá til með að borga? Eru það ekki skattgreiðendur í landinu? Þetta mál er því ekkert svona einfalt.
    Varðandi stórhækkuð þjónustugjöld í bankakerfinu þá kostar heilmikið að reka húsnæðisbatteríið og það eru engir peningar sem koma af himnum ofan sem bera uppi þann kostnað.