Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:22:25 (387)


[14:22]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar maður hugsar til liðinna ára í þessari virðulegu stofnun þá hygg ég að það megi segja að umræðan um húsnæðismál hafi verið býsna áberandi að ekki sé sagt eins og rauður þráður í umræðum á Alþingi um margra áratuga skeið. Ég hugsa að sú umræða hafi kannski hafist fyrst að einhverju verulegu marki í kringum setningu laganna um Byggingarsjóð ríkisins og Húsnæðisstofnun í félagsmálaráðherratíð Hannibals Valdimarssonar fyrir nærri fjórum áratugum. Þar áður ræddu menn auðvitað mjög oft um félagslega íbúðabyggingakerfið og um það voru mjög skiptar skoðanir og miklar deilur.
    Deilurnar núna á síðustu 10--15 árum hafa snúist um fjármögnun þessa kerfis. Það hefur í fyrsta lagi verið viðurkennt að það væri eðlilegt að ríki og sveitarfélög kæmu til skjalanna að því er varðaði uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis og að vextir t.d. á lánum til félagslegs húsnæðis væru niðurgreiddir með tilteknum hætti, væru lægri en annars staðar auk þeirra vaxtabóta eða húsnæðisbóta sem teknar eru ákvarðanir um á hverjum tíma.
    Í annan stað voru menn mjög lengi þeirrar skoðunar að það væri eðlilegt að ríkið kæmi einnig til stuðnings á hinum almenna húsnæðismarkaði, þ.e. gagnvart þeim sem eru með þokkalegar tekjur, þokkalega getu til tekjuöflunar, að þeir gætu fengið einhvern stuðning frá hinu almenna kerfi ríkisins í þessu efni.
    Nú er staðan hins vegar þannig og hefur verið að þróast síðustu árin að þeir sem búa við, mér liggur við að segja venjuleg kjör, venjulega heilsu, venjulega tekjuöflunargetu, venjulega ómegð líka, eru meira og minna komnir út úr möguleikum til þess að eignast eigið húsnæði. Þannig að munurinn annars vegar á lífskjörum þeirra sem voru að eignast húsnæði fyrir 20--30 árum og hins vegar þeirra sem mundu þurfa að eignast húsnæði í dag er ofboðslegur. Ég hugsa að það sé í raun og veru útilokað að finna meiri mun á lífskjörum á milli tveggja kynslóða en einmitt þessara tveggja sem ég er að tala um í okkar efnahagslegu sögu.
    Þar kemur mjög margt til. Eitt er það sem við fjmrh. ræddum hér áðan, þ.e. kaupmáttarskerðing sem hefur orðið til á löngu tímabili. Annað er samdráttur í atvinnulífinu sem hefur einkum orðið til núna á allra síðustu árum, atvinnuleysi er í raun og veru óþekkt fyrr en í tíð núv. ríkisstjórnar. En í þriðja lagi er ástæðan svo sú að það er verið að borga miklu, miklu hærri vexti en greiddir voru áður. Menn fengu fjármunina á tiltölulega vægu verði hér áður, jafnvel á neikvæðum vöxtum. Í seinni tíð hafa vextir ekki aðeins verið jákvæðir heldur hefur verið nánast um að ræða vexti sem hefðu verið kallaðir okurvextir meðan lögin um bann við okurstarfsemi voru til. Þá er ég bara að hugsa um dæmi sem þrífast í skjóli opinberra aðila eins og þau dæmi sem hv. þm. Pétur Bjarnason nefndi áðan og þrífast í skjóli opinberra aðila eftir tilteknum opinberum viðurkenndum kerfum. Og svo langt gekk ríkið og aðrir aðilar sem að þessu hafa komið í því að viðurkenna þetta okurkerfi, þessi ofboðslegu afföll, að menn fengu þau aldrei bætt. Afföllin hafa aldrei fengist bætt. Vextirnir hafa fengist bættir en afföllin aldrei nokkurn tímann. Niðurstaðan er sú að ungar fjölskyldur, þúsundum saman, hafa orðið leiksoppar þessa kerfis og þessara breytinga sem hafa gerst allt of hratt. Ég tel að kröfugerð og framganga Alþfl. í því á árunum eftir 1979 að knýja fram verðtryggingu fjárskuldbindinga hafi komið mjög harkalega niður á þessu fólki.
    Hvað gerðu menn þá til þess að reyna að svara þessum vanda, þessari ofboðslegu vaxtatöku sem allt í einu varð til miðað við það sem áður var? Hvað gerðu menn? Það var samið um húsnæðiskerfið sem kallað hefur verið 86-kerfið. Það hefur gengið maður undir manns hönd að tala alltaf illa um þetta 86-kerfi. Lengi vel var það þannig að þeir framsóknarmenn reyndu aðeins að halda uppi vörnum fyrir 86-kerfið af því að Alexander Stefánsson var þá félmrh. Nú eru framsóknarmenn orðnir hálfaumingjalegir líka í sambandi við þetta 86-kerfi. Hvað var þetta 86-kerfi?
    86-húsnæðiskerfið var niðurstaða kjarasamninga sem gerðir voru snemma á árinu 1986. Það var alveg ljóst þegar þeir samningar voru gerðir að það yrði mjög erfitt að fjármagna það kerfi. Það var alveg augljóst mál strax í upphafi. Hins vegar töldu aðilar, eins og þáv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., lífsnauðsyn að knýja málið hér í gegn og ég man ekki betur en að allir flokkar á Alþingi, sem þá voru hér inni, hafi staðið að þessum kerfisbreytingum, jafnvel Kvennalistinn, sem er þó svo að segja syndlaus á öllum sviðum stjórnmálanna en ég er ansi hræddur um að hann hafi jafnvel flekkast eilítið af því að hafa komist í snertingu við þetta sæla 86-kerfi. En niðurstaðan verður sú að menn eiga ekki pening til þess að koma þessu kerfi á sem skyldi og hæstv. fyrrv. félmrh., 12. þm. Reykv., stendur svo í því um árabil að berjast við afleiðingar þessa kerfis peningalaus. Og þá er farið í húsbréfakerfið.
    Ég held að þetta 86-kerfi hafi ekki verið eins slæmt og hefði heldur ekki þurft að vera eins dýrt og menn ímynduðu sér að það yrði. Ég var þeirrar skoðunar að miðað við það að menn væru kannski að fá þarna 80% lán þá væri allt í lagi að menn þyrftu að bíða eftir því í dálítinn tíma vegna þess að það er nú einu sinni þannig að það er ekki hægt að uppfylla óskir allra með peningum, sérstaklega þegar um peningaleysi er að ræða eins og venjulega hjá ríkissjóði. Ég er því þeirrar skoðunar að menn hafi gefist of snemma upp við að reyna að þróa 86-kerfið vegna þess að ég held að húsbréfakerfið muni reynast ríkissjóði ofboðslega dýrt þegar fram í sækir í hækkandi vaxtabótagreiðsluþörf, svo ég bregði fyrir mig löngu en ekki mjög fallegu orði.
    Ég held því að þegar menn horfa á þetta þá eigum við ekki að vera að setja okkur í þær stellingar að 86-kerfið hafi verið afleitt og húsbréfakerfið frábært. Í rauninni eru hlutirnir ekkert þannig. Í rauninni er það svo að við þurfum að reyna að sameinast um að finna leið til að framkvæma þann pólitíska vilja okkar að við teljum íbúðarhúsnæði hluta af frumþörfum manna, sérstaklega af því að það er svo kalt á Íslandi. Þess vegna er ekki ástæða til þess að búa til sérstakar fantagildrur í fjármögnun, vöxtum og öðru slíku þegar menn þurfa að koma yfir sig húsnæði.
    Ég vil síðan segja það, hæstv. forseti, að það getur út af fyrir sig verið rétt að sú aðferð um fljótandi lánstíma sem hæstv. núv. félmrh. hefur nefnt sé ekki besta aðferðin, ég skal ekkert um það segja. En það getur þá verið að menn eigi að taka aftur upp þá aðferð sem var í húsnæðislögunum frá 1986, eins og þeim var breytt skömmu síðar með atkvæðum allra flokka á Alþingi á þeim tíma, og gerðu ráð fyrir því að greiðslubyrði miðaðist að einhverju leyti við tekjur þannig að þegar menn réðu ekki við að greiða af þessum lánum þá yrði mismunurinn fluttur aftur fyrir. Hér var um að ræða gífurlega þýðingarmikla tryggingu fyrir þá sem höfðu tekið lán í þessu kerfi. Þessu neyddumst við til að breyta fyrir nokkrum missirum en það er spurning hvort ekki er komið að því aftur að þetta verði að taka upp, eins og við reyndar lögðum til, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, á síðasta þingi þegar við fluttum sérstakt frv. um húsnæðismál þar sem við gerðum ráð fyrir því að það yrði sett þak á afborganir lána og mismunurinn sem ekki yrði greiddur yrði fluttur aftur fyrir lánið og það þannig lengt með tilteknum hætti. En það er svo rétt að

fjármuna til þess þarf líka að afla. Það mætti hugsanlega gera það með samningum við lífeyrissjóðina eins og ég gat um í morgun þar sem rætt yrði við þá um endurfjármögnun á vanda þess fólks sem ræður ekki við að borga af lánunum eins og þau eru.