Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:32:40 (388)


[14:32]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að rifja það upp af því að hv. síðasti ræðumaður talaði um 86-kerfið og að við hefðum kannski átt að hafa meiri biðlund gagnvart því kerfi þá vil ég minna hann á að það kom skýrsla frá Ríkisendurskoðun með úttekt á 86-kerfinu. Ég man ekki hvað marga tugi milljarða í ríkisframlögum Ríkisendurskoðun kvað upp úr í þessari skýrslu það mundi kosta ef við héldum áfram þessu kerfi. Þar vorum við með biðtíma upp á 3--4 ár. Ég er hrædd um að það hefði fljótt orðið gjaldþrota og var reyndar orðið þegar það var lagt af. Það voru óhugnanlegar tölur sem voru nefndar í þeirri skýrslu og menn vilja nú einu sinni taka mark á Ríkisendurskoðun.
    Þegar hv. þm. talar hér um háa vexti, væntanlega þá í húsbréfakerfinu sem eru um 5% og kannski er hann líka að tala um félagslega íbúðakerfið, þá verður hv. þm. að muna það að hér á árum áður, mig minnir að það hafi verið þegar hv. þm. var félmrh., þá var lánshlutfallið ekki nema 17%. Það var að vísu á lágum vöxtum en það þýddi það að fólk þurfti að taka verulegan hluta af íbúðarverðinu í gegnum bankakerfið með mjög háum vöxtum. Ég man að það var reiknað út á sínum tíma að þegar meðaltalið af vaxtabyrðinni var skoðað miðað við það sem fólk þurfti að taka í bönkum og það sem lánað var frá hinu opinbera þá voru vextir töluvert háir. Mig minnir að á þeim tíma sem það var skoðað hafi meðalvaxtabyrði hjá fólki verið 6--7% af því að lánshlutfallið var það lágt í húsnæðiskerfinu. Nú er þó stór hluti af þessu í húsbréfakerfinu, eða 65%, og þar af er verulegur hluti endurgreiddur í gegnum vaxtabótakerfið og verulega stór hluti, ekki síst fyrir lágtekjuhópana.