Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 14:38:45 (392)


[14:38]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem mig langar til að gera tilraun til að svara. Þau komu fram hér í umræðunum. Ég ætla að reyna að forðast að gera þetta að almennri umræðu um húsnæðismál sem þó er gagnlegt og ég held að þessi umræða hér í dag hafi verið mjög málefnaleg um þau mál og lýsir því að það er auðvitað vandi í þessu kerfi eins og öðrum og það er líka nauðsynlegt að hv. þm. ræði annað veifið þetta stóra mál. Hv. 15. þm. Reykv. spurðist fyrir um það hvar stæði stuðningur við atvinnufyrirtæki á Vestfjörðum. Að því er ég best veit þá hefur þegar verið auglýst eftir umsóknum. Þær hafa borist og það er verið að vinna að þeim umsóknum. Á næstu dögum og vikum verða gefin út lánsloforð og ég tel mig vita að hugmyndin sé að greiða til viðkomandi fyrirtækja eftir því sem þau fyrirtæki standast þær kröfur sem lög og reglur gera. Þetta starf er unnið undir forustu forsrn. og Byggðastofnunar en með þátttöku fjmrn.
    Í öðru lagi ræddi hv. þm. um Húsnæðisstofnun og sagði að eðlilegt væri að stokka upp stofnunina og reyna að spara. Inn í þá umræðu barst með óbeinum hætti utan úr sal hugmynd um að sameina byggingarsjóðina. Ég skal ekki segja neitt um það hve mikið það getur sparað. Menn hafa leikið sér með tölur í því sambandi. En til að verja hv. ríkisstjórn fyrr og nú þá vil ég geta þess að á sínum tíma tók þáv. félmrh. til hendi og gerði sparnaðarráðstafanir í Húsnæðisstofnuninni sem ég held að hafi gengið eftir. ( JóhS: Er þetta ástarjátning?) Til að það komist nú alveg örugglega til skila í bækur þingsins, kallaði hv. þm., fyrrv. félmrh., hér fram í í fyrirspurnartón, hvort þetta væri ástarjátning og ef hv. þm. skilur það svo þá er honum það heimilt.
    Nú síðan sagði hv. þm., 15. þm. Reykv., að niðurskurður hefði átt sér stað í félagslega húsnæðiskerfinu, Byggingarsjóði verkamanna. Ég ætla ekki að rifja upp ummæli sem eftir mér hafa verið höfð um fyrrv. félmrh. þegar minnst var á þetta ágæta kerfi og annað skylt, kaupleiguíbúðirnar, enda er ég ekkert viss um að það hafi verið rétt eftir mér haft og það gæti skoðast sem ástarjátning ef ég fer að rifja það upp. En ég vil geta þess að ástæðan fyrir því að útgjöld til Byggingarsjóðs verkamanna lækka nú er auðvitað sú að það er verið að færa fjármuni inn í húsaleigubótakerfið til notkunar fyrir það fólk sem hefur ekki efni eða kærir sig ekki um af einhverjum ástæðum að búa í eigin húsnæði. Þannig að þessir fjármunir og meiri fjármunir til vegna þess að sveitarfélögin leggja fram fjármuni á móti og fjármunir munu koma úr öðrum áttum munu auðvitað ganga til húsnæðismála í víðtækustu merkingu þess orðs. Þetta segi ég þó það kannski ættu að vera aðrir hv. þm. hér í salnum sem hefðu átt að taka upp hanskann fyrir þessa breytingu sem nú er gerð á fjárlögum íslenska ríkisins.
    Hv. 12. þm. Reykv. ræddi hér margt sem ástæða hefði verið til að ræða en ég ætla aðeins að drepa á örfá atriði.
    Í fyrsta lagi langar mig til að taka upp tillögu hennar eða ábendingu um það hvernig ríkisábyrgðargjaldið eða ábyrgðargjaldið fellur til í Danmörku. Ég get vel hugsað mér að það sé skynsamlegt að ábyrgðargjaldið sé mishátt eftir veðböndum í viðkomandi húseignum. Það sé ekki óeðlilegt varðandi ótryggari veð að eftir því sem hlutfall þeirra hækkar þá sé ábyrgðargjaldið hærra. Vandinn hins vegar við það er nákvæmlega sá sami sem hv. þm. benti á varðandi ríkisábyrgðina ef við hverfum frá henni þá má búast við að á frjálsum markaði muni hið sama geta gerst. Ég er ekki að segja að það gerist en það getur gerst að álagið verði mismunandi eftir áhættunni sem lánastofnanir taka. Þetta er alþekkt ekki bara hér á landi heldur víða annars staðar. Ég er ekki að leggja þetta til, ég er hins vegar að benda á að það kann að vera ástæða til að fara öðruvísi að.
    Hv. þ.m. sagði síðan að það lægju í Seðlabankanum oft 1--2 milljarðar sem stafar af því að íbúðarkaupendur greiða til húsbréfadeildar af sínum fasteignaveðbréfum nokkrum mánuðum áður en útdráttur viðkomandi húsbréfa fer fram. Það skal tekið fram vegna orða hv. þm. sem gaf í skyn að hægt væri að ná þar inn peningum til að standa undir hugsanlegu tapi deildarinar að það er nauðsynlegt fyrir húsbréfadeildina að ávaxta þetta vörslufé á ekki lakari vöxtum en eru á húsbréfunum á þessu tímabili og til þessa hefur ávöxtunin verið mun lakari en sem því nemur. Þannig að það er ekki mikil fjárvon í því sem hv. þm. lýsti með þessum hætti. ( SvG: Hver er ávöxtunin á þessu?) Ég man það nú ekki nákvæmlega. ( JóhS: Það er 1,2% vextir.) Já, ætli það sé ekki eitthvað um það bil. En það er einhver munur sem myndast. Þetta er

sem sagt ekki fundið fé. Það er misskilningur, þetta er ekki fundið fé. Það er ekki hægt að telja það allt fram sem slíkt.
    Það kom fram spurning frá hv. þm. um það hver þóknunin væri sem ríkissjóður tæki vegna endurlána Húsnæðisstofnunar því okkur hefur ekki tekist að fá kaupendur að húsnæðisbréfum. Ég vil taka fram að Húsnæðisstofnun fær lán á sömu kjörum og ríkið, á 5%. Það eru sömu kjör og ríkið fær. ( JóhS: Þóknun?) Ja, þetta eru bráðabirgðalán eins og sakir standa að stærstum hluta en þegar þeim er breytt í langtímalán þá er farið eftir eðlilegum reglum og ég bara get ekki lýst því hér og nú hvernig þær nákvæmlega eru milli þessara aðila. En ég bendi á að þetta er gert núna vegna þess að okkur þótti ekki ástæða til að játast undir að það þyrfti að vera annað vaxtastig á húsnæðisbréfum en spariskírteinum ríkissjóðs af því að ríkið ber 100% ábyrgð á húsnæðisbréfunum. Það væri vissulega áhugavert að ræða þetta mál frekar um það hvernig markaðurinn hefur þróast og hvernig einstakir aðilar á verðbréfamarkaðnum, sveitarfélög, sem í raun eru með ríkisábyrgð samkvæmt íslenskum lögum, og lánastofnanir eins og Iðnlánasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins, fyrirtæki eins og Landsvirkjun og fleiri hafa verið að koma inn á verðbréfamarkaðinn og hafa í raun og veru tekið ávöxtunarkröfu sem er önnur og meiri heldur en ríkið á verðbréfamarkaðnum. Mér finnst þetta vera umhugsunarvert fyrir ríkið sem ber 100% ábyrgð á þessum fyrirtækjum. Ég nefni þetta hér vegna þess að fyrirtækin, þessi stóru og sterku fyrirtæki, þar á meðal einkafyrirtæki á borð við Eimskipafélag Íslands og fleiri slík fyrirtæki hafa verið að fara út á verðbréfamarkaðinn sem er eðlilegt vegna þess að bankar bjóða ekki þessum fyrirtækjum vaxtakjör sem fást á verðbréfamarkaðnum. Eftir sitja í bankakerfinu, ja í þessum skilningi lakari viðskiptamenn. Síðan eru bankarnir að keppa um innlánin við ríkissjóð með því að bjóða jafnvel lífeyrissjóðum innlán á yfir 5%, 5,3% þekkist og fyrir vikið hefur ekki tekist að ná vöxtunum í bankakerfinu nægilega mikið niður sem auðvitað bitnar á skuldugum fyrirtækjum og skuldugum einstaklingum. Þetta er mál sem er fjallað nokkuð vel um í fjárlagafrv. í athugasemdunum og ég veit að hv. þm. hafa fullan skilning á og það var rætt nokkuð í gær í fjárlagaumræðunni.
    Varðandi markaðshæfni 40 ára bréfa þá er það rétt að ugglaust er hugsanlegt að gefa slík bréf út en þá getum við búist við að ávöxtunarkjörin verði eitthvað önnur. Þetta er binding til lengri tíma og markaðurinn virkar þannig að eftir því sem maður bindur fé til lengri tíma er áhættan meiri og eigendur, tilvonandi eigendur, kaupendur slíkra bréfa þeir vilja þá að ávöxtunarkrafan sé önnur.
    Það hefur verið rætt hér, og hv. þm. gerði það, að ástæða væri til að hugleiða rækilega hvort ekki mætti hækka hlutfall af fyrstu íbúð. Nú er það svo að ég tala hér sem fjmrh. en ekki sem félmrh. og það hefur . . .  ( JóhS: Og varaformaður Sjálfstfl.) Já, og varaformaður Sjálfstfl. með meiru svo á það sé minnt af fyrrv. varformanni Alþfl., ég þakka fyrir þá ábendingu. Ég get tekið undir þetta. Mér finnst þetta æskilegt. Ég hef aldrei lagst gegn því að þetta verði skoðað. En þá þarf hugsanlega að gera einhverjar aðrar breytingar á kerfinu á móti og kemur þar upp um hjartað í fjmrh. að hann er ekki tilbúinn til að bæta sífellt við kerfið. Það er alltaf auðvelt að auka við kerfið en það þarf að passa sig á því að það fari ekki úr böndum því það getur endanlega drepið þetta kerfi ef það gerist. Ég væri því tilbúin til að skoða það ef hægt er að gera það innan þeirra fjárheimilda sem til eru á hverjum tíma. Af því að ég minnist á fjárheimildir þá enn á ný vil ég segja að ástæðan fyrir því að við erum í þessum vandræðum hér í dag, að það kemur svona bil í þetta kerfi, er auðvitað sú að það er skylda okkar að leita heimilda þingsins af því að hér er um að ræða ríkisábyrgð. Og það væri vissulega fengur í því og ég fer ekki ofan af því hvað sem fulltrúar félmrn. og Húsnæðisstofnunar segja því að ég veit að formaður stjórnar Húsnæðisstofnunar telur að það sé einasta hlutverk alþingismanna að útvega nýtt fé í þetta kerfi. Það hef ég heyrt hann segja og það er kannski eðlilegt. Mitt álit er það og ég skal segja það hér úr þessum ræðustól að ég álít að formaður stjórnar Húsnæðisstofnunar eigi að sjá til þess að lögum sé fylgt þar á meðal lánsfjárlögum og hann eigi að gera tillögur um það hvernig breyta eigi kerfinu innan þeirra marka. Það er hlutverk hins ábyrga stjórnanda í þessu kerfi. Hitt er svo annað mál að þetta þarf að vera í umræðu á milli tveggja ráðuneyta og Húsnæðisstofnunar á hverjum tíma. Og ég vil láta það koma skýrt fram að tilraunir eða uppástungur fjmrn. og þess sem hér stendur og ég býst við að sömu sögu megi segja um þá sem hafa nefnt að það eigi að hverfa frá ríkisábyrgðinni er að kerfið geti verið sjálfstætt. Ég get tekið undir að það er engin ástæða fyrir ríkið að hlaupa frá, þetta tekur tíma. Ríkið getur verið þátttakandi í húsbréfabanka, átt ákveðinn hlut í bankanum, fylgt honum eftir út í þjóðfélagið, út í efnahagskerfið og séð til þess til að byrja með að vextirnir stórhækki ekki fyrir vikið. Ég er sannfærður um að slíkt kerfi á fullan rétt á sér fyrir almenning í þessu landi. Eftir sem áður verðum við að viðurkenna það, og um það held ég að allir flokkar á Íslandi séu sammála, að það verður að halda úti félagslegu kerfi fyrir þá sem verst eru settir. Um það held ég að allir séu sammála jafnvel þótt menn hafi mismunandi hugmyndir um útfærslu á slíku kerfi.
    Virðulegur forseti. Þetta voru nú nokkur orð kannski aðallega um húsnæðismál en minna um þetta frv. En frv. gaf auðvitað tilefni til slíkra umræðna. Ég vil þakka hv. þm. fyrir málefnalegar umræður hér í dag og enn á ný að leyfa mér að óska eftir því að hv. efh.- og viðskn. afgreiði málið eins fljótt og verða má.