Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:00:56 (395)


[15:00]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst að ráðherrann verði að svara því hér, fyrst hann hefur nú gefið opnun á að það sé hugsanlega möguleiki að hækka lánshlutfallið í húsbréfakerfinu, þó ekki væri nema fyrir fyrstu íbúðarkaupendur: Mun hann þá standa gegn því að útgáfa á húsbréfum yrði aukin til þess að þetta sé mögulegt? Vegna þess að ef ekki verður farin sú leið, þá erum við að lækka lánshlutfallið kannski hjá öðrum niður í 40 eða 50%. Það er því mjög mikilvægt að vita hvort það liggi þá fyrir vilji ráðherrans til þess að auka útgáfuna þannig að hægt sé að hækka lánshlutfallið.
    Ég vil líka geta þess af því að ég gleymdi því hér áðan, af því að ráðherrann talaði um ábyrgð formanns húsnæðismálastjórnar til þess að halda sér innan þess sem lánsfjárlög kveða á um. Gott og vel. Ef formaður húsnæðismálastjórnar og húsnæðismálastjórn færu nákvæmlega eftir því þá hafa þau ekki nema eina leið, þ.e. að koma hér á skömmtunarkerfi, koma hér aftur á biðraðakerfi þar sem fólk þarf að bíða vikum saman og það myndast þá þessar stíflur sem geta haft óæskileg áhrif á markaðinn. Þannig að mér finnst mjög einfalt, miðað við það hvernig staðið hefur verið að þessari útgáfu, að skella skuldinni á formann húsnæðismálastjórnar og húsnæðismálastjórn og segja að þau verði bara að halda sig innan þess sem lánsfjárlög segja til um, vegna þess að þau hafa enga aðra leið en þá að koma hér á skömmtunarkerfi eða einhverju biðraðakerfi.