Lánsfjáraukalög 1994

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:06:05 (398)


[15:06]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér fannst þetta nú óþarfa athugasemd af síðasta ræðumanni, vegna þess að ég skal vera fyrst manna til þess að standa með félmrh. í því að lengja hér lánstímann, ef það er raunhæft og ef það hækkar ekki ávöxtunarkröfuna hjá fólki. Ég meina, ef þetta skilar einhverju til fólks þá skal ég vera fyrst manna til að standa með félmrh. í þessu máli. Ég hef sett fram ákveðnar efasemdir um að þetta skili sér, en ég er auðvitað jákvæð fyrir því að skoða þetta, hvet til þess að það verði gert áfram af ríkisstjórninni og ráðuneytunum. En ef þetta skilar sér ekki til fólksins, þá er ekki víst að það borgi sig að fara af stað með það. Og þess vegna, hv. þm., beindi ég því til fjmrh. hvort hann sæi þá möguleika á annarri leið ef þessi gengi ekki, vegna þess að ég vildi hafa það uppi á borðinu, á meðan við værum á annað borð að ræða þetta mál í þingsölum, hvort það væri þá önnur leið sem hægt væri að fara ef þessi gengi ekki upp. Ég vil taka það mjög skýrt fram að ég er alls ekki á móti því að þetta verði skoðað, en ég vil líka hafa

tryggingu fyrir því að þetta skili sér til fólksins. Ég vildi líka reyna að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort menn væru þá tilbúnir til þess að skoða aðrar leiðir til þess að létta greiðslubyrðina hjá fólki ef þessi gengi ekki eftir. Það vil ég hafa mjög skýrt.