Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:12:32 (401)


[15:12]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir það að hann er efnislega samhljóða þessu frv. og styður það, eftir því sem mér heyrist á honum. Ég vil geta þess, fyrst hann kaus að tengja þetta mál öðrum málum sem ég hef mælt fyrir á þinginu í dag, sem lúta að breytingum á skattalögum, þar sem vissulega er verið að opna á fleiri frádráttarliði heldur en eru í skattalögum eins og þau

eru nú, að í röksemdafærslu sem kemur fram í greinargerð með því máli er bent alveg sérstaklega á að það mál er ekki til þess líklegt að auka útgjöld ríkisins heldur leiða til betri skattskila. Það mun því þvert á móti bæta stöðu ríkissjóðs ef nokkuð er og ef hv. þm. vill taka á þessu máli eins og ég hef hugsað það, þá getum við tekið þessi mál öll í heild. Ég er sannfærður um það að þessi mál munu hvort fyrir sig, bæði 18. mál og einnig skattamálið sem varðar viðhaldsverkefni í byggingariðnaðinum og afslátt, bæta stöðu ríkissjóðs þegar til heildar er litið en ekki krenkja stöðu hans.
    Að því er varðar ríkisstjórnina og fjárlögin þá er í 18. málinu, sem hér er verið að reifa og mælt var fyrir fyrr í dag, verið að fara inn á svipaðar slóðir og ríkisstjórnin sjálf hafði farið inn á. Í frv. til laga um vinnumiðlun sem var lagt fram og kynnt í þinginu í fyrra en ekki mælt fyrir, enda kom það seint fram, var einmitt gert ráð fyrir því að hægt væri að grípa til svipaðra ráðstafana og hér er talað um. Þó að það sé með nokkuð öðrum hætti gert er þetta mál svipaðs efnis og þar var gert ráð fyrir þannig að þetta er á svipuðum nótum eins og ríkisstjórnin hefur gert ráð fyrir að fara inn á.
    Ég skal ekki segja hvað verður um þetta frv. til laga um vinnumiðlun með nýjum herrum í því ráðuneyti en ég legg hitt málið fram vegna þess að ég tel það nauðsynlegt og ég hef fulla ástæðu til þess að ætla að þetta framfaramál eins og önnur framfaramál sem ég hef lagt fram hér fái stuðning. Ég hef fengið samþykkt í þinginu mál sem varða skatta og treysti mér fullkomlega til að koma þessu máli fram líka.