Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:20:34 (406)


[15:20]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil lýsa stuðningi við það frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar sem hér er til umræðu og sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich og Valgerður Sverrisdóttir flytja. Ég tel að hér sé hreyft afar merkilegu og mikilvægu máli sem er að auðvelda einstaklingum sem eru atvinnulausir og á atvinnuleysisbótum að bæta stöðu sína með því að geta verið á bótum og leitað eftir námi. Ég held að það sé afar mikilvægt að skapa þann möguleika.
    Það eru ýmsir sem velta því fyrir sér hvernig megi koma til móts við þá sem eru atvinnulausir og ég held að það sé þannig í okkar þjóðfélagi að við höfum lítt viljað horfast í augu við þennan möguleika, þá köldu staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og eins og víða annars staðar í Evrópu, þ.e. auknu atvinnuleysi. Ég held þess vegna að þetta frumkvæði sem hv. þm. taka og vilja með því bæta stöðu þeirra sem eru atvinnulausir sé mjög þarft og ég held að það sé nauðsynlegt að skoða með hvaða hætti öðrum megi e.t.v. bæta stöðuna enn frekar.
    Ég vil hins vegar segja vegna orða hv. 9. þm. Reykv. að mér finnst það svolítið undarleg afstaða að hann skuli gera ráð fyrir því að þetta frv. þurfi endilega að raska svo mjög þeim áætlunum sem uppi eru um útgjöld vegna atvinnuleysisbóta og skuli reyna að gera málflutning hv. 1. flm. frv. tortryggilegan vegna þess að hv. 9. þm. Reykv. telji að það vanti fjármuni í Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Ég vil segja við hv. þm. að auðvitað verður að bregðast við því. Ef atvinnuleysi verður meira en áætlanir gera ráð fyrir þarf að bregðast við því og tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði aukið fjármagn. Það liggur alveg í augum uppi. Ég veit það að hann hefur góðan skilning á því sem fyrrv. ráðherra að það verður að hlaupa undir bagga með Atvinnuleysistryggingasjóði þegar og ef á þarf að halda. En ég tel ósanngjarnt að tengja fjárlagafrv. við framlagningu þessa frv. með þeim hætti sem þingmaðurinn gerir og vil ekki hafa fleiri orð um það en lýsi sérstakri ánægju með frv. sem hér liggur fyrir og mun styðja það.