Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:27:37 (408)


[15:27]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 9. þm. Reykv. vil ég vekja athygli á því vegna þess að hv. þm. er stöðugt að reyna að draga úr því að hér sé á ferðinni merkilegt mál með því að tengja það fjárlagafrv. að það á ekki að koma þingmönnum Alþb. á óvart að það sé vilji til þess hjá öðrum þingmönnum að standa fyrir úrbótum varðandi atvinnuleysisbætur og réttindi þeirra sem eru atvinnulausir. Það eru sem betur fer miklu fleiri en þeir sem vilja með einum eða öðrum hætti leggja þar hönd á. Mér fannst aðeins örla á því að hv. þm. væri að reyna að eigna sér þá hugmyndafræði sem frv. hv. þm. Tómasar Inga Olrich byggir á. Ég held að það sé misskilningur. Þarna er flutt hið merkasta mál sem ég styð og það er alveg burtséð frá því þó að hér hafi verið flutt fjárlagafrv. eins og lög gera ráð fyrir. Ég vil bara ítreka það og endurtaka að í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir fjármunum til Atvinnuleysistryggingasjóðs og ég vænti þess að eftir sem áður fái flm. góðan stuðning frá þingmönnum Alþb. við það frv. sem hér er til umfjöllunar.