Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:32:35 (411)


[15:32]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að biðja þingheim að afsaka að þær tölur sem ég notaði eru frá ríkisstjórninni. Það eru ekki fullstór orð af minni hálfu. Þær 200 millj. sem vantar og þarf að skera niður eru frá ríkisstjórninni. Það er því ekki þannig að sá þingmaður sem hér stendur hafi fundið þær upp þó hann sé innrættur með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. En þá liggur dæmið þannig fyrir að þessar 200 millj. er tala sem er komin frá ríkisstjórninni. (Gripið fram í.) En það er reyndar talað um það, hv. þm., að ef atvinnuleysi verður eins og spáð er á næsta ári þá geti vöntunin verið 1.000 millj. Um þá tölu er ágreiningur. En um töluna 200 millj. sem ég nefndi áðan er enginn ágreiningur. Hún er ekki fundin upp af mér eins og hv. þm. virðist halda. Það er ekki þannig og ég ráðlegg honum að lesa grg. fjárlagafrv.