Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:34:41 (412)

[15:34]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins að það komi fram að þó að ég fagni stuðningi hv. 9. þm. Reykv. við það frv. sem hér hefur verið lagt fram þá finnst mér óþarfi af hans hálfu að ýja að því, því það hefur hann vissulega gert, að hér sé um vissa tvöfeldni að ræða. Við leggjum fram góð mál sem kosti peninga en síðan séum við að skera niður Atvinnuleysistryggingasjóð í fjárlögum. Ég vil benda á það að þetta mál eins og skattalagafrv. sem mælt var fyrir hér í morgun er þannig að það miðar að því að fækka atvinnulausum og minnka útgjöld sjóðsins þegar til lengri tíma lætur. Þar af leiðandi er ekki hægt að líta á málið á svona einfaldan hátt eins og hv. þm. gerir. Ég vil einnig endurtaka það hér að atvinnuleysisbótaþörfin tengist að sjálfsögðu atvinnuástandinu í landinu og þar eru augljósar vísbendingar að mati samtaka iðnaðarins, svo ég nefni ein samtök sem hafa látið þetta koma í ljós, um batahorfur.