Atvinnuleysistryggingar

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 15:35:47 (413)


[15:35]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð bara að hryggja hv. þm. Tómas Inga Olrich með því eins og hv. 1. þm. Vesturl. áðan að mínar heimildir er grg. fjárlagafrv. og ekkert annað. Vonandi sjá menn ekki möguleika sem eru að birtast í atvinnulífinu en ég efast um að það sé þannig. Ég óttast að spá fjárlagafrv. sé í það tæpasta ef eitthvað er.
    Varðandi það hins vegar að þetta frv. muni hafa í för með sér minna atvinnuleysi til lengri tíma litið, þ.e. þá erum við að tala um nokkur ár fram í tímann, þá er mitt svar við þeirri spurningu tvímælalaust já. Það hefur alltaf verið mín skoðun að í raun og veru sé það þannig að peningar sem fara til t.d. lánamála námsmanna séu peningar sem skila arði inn í framtíðina og þess vegna eigi menn ekki að horfa svo þröngt á að skoða hlutina bara innan þess árs sem um er að ræða. Það er alveg augljóst mál t.d. að sá niðurskurður sem verið hefur í menntamálum á þessu kjörtímabili upp á 2,1 milljarð kr. mun koma niður á framtíðinni, bitna á framtíðinni, bitna á lífskjörum framtíðarinnar. Alveg á sama hátt er hugsanlegt að það frv. sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich er hér að flytja muni kannski minnka peningaþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs og ég fagna því að menn horfi ekki aðeins fram fyrir tærnar á sér heldur líka út fyrir þarnæstu áramót og líti aðeins til framtíðar en á því hefur verið skortur í þeirri fortíðarbundnu ríkisstjórn sem nú situr í landinu.