Nýting landkosta

8. fundur
Fimmtudaginn 13. október 1994, kl. 16:00:18 (417)

[16:00]
     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um nýtingu landkosta. Á síðustu árum hefur farið fram mikil umræða um stöðu Íslands í samfélagi þjóða. Efst á baugi var sú umræða þegar rætt var um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og er nú aftur að verða mjög á dagskrá vegna tengslanna við Evrópusambandið ef Evrópska efnahagssvæðið hverfur á braut og einnig hefur verið rætt um nánara samband við Norður-Ameríku. Að mínu mati virðist nokkuð skorta á að þessi umræða og sú afstaða sem tekin er þar af ýmsum aðilum byggist alltaf á nægilega ítarlegum athugunum þar sem þess er gætt að hafa öll sjónarmið í huga. Þó að öllum sé ljóst að Íslendingar þurfa að hafa mikil og góð samskipti við aðrar þjóðir, þá skapar lega landsins því sérstöðu. Framtíð þjóðarinnar hlýtur að byggjast á því að hún geti nýtt einhverja þá kosti sem landið býður umfram það sem er að finna annars staðar til að vega á móti því sem erfiðara er. Það er því mikilvægt að athuga vel hverjir þessir kostir eru og hvort eða hvernig breyttar aðstæður gefa tækifæri til að nýta þá. Niðurstaðan af slíkri athugun getur síðan haft úrslitaáhrif á það hvaða leiðir við eigum að fara til að tengjast öðrum þjóðum.
    Það er alllangt síðan vakin var athygli á því að Ísland liggur á krossgötum milli fjarlægra heimshluta. Einhver frægasti Íslendingur á fyrri hluta þessarar aldar, Vestur-Íslendingurinn Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður, vakti athygli á þessu. Og með gífurlegum framförum í þróun samgangna hafa allar fjarlægðir í tíma styst svo að auðvelt er að mætast á þessum vegamótum.
    Á sl. sumri kom hingað í heimsókn á vegum bændasamtakanna einn af starfsmönnum Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA. Eftir stutta dvöl hér skrifaði hann þegar hann var kominn heim til sín m.a. eftirfarandi:
    ,,Ísland hefur marga kosti. Stórkostlegt landslag, íbúa sem eru iðnir og tala fjölda erlendra tungumála, hreint loft, ómengað vatn, lífrænt ræktaða fæðu, gnótt af landi og hita- og rafmagnsgjafa sem ekki valda mengun og þar er lág glæpatíðni. Til viðbótar þessu gerir landfræðileg lega Íslands, jákvætt viðhorf almennings til heilbrigðra lífshátta og sú staðreynd að landið er tiltölulega hlutlaust það að verkum að Ísland eru hin fullkomnu vegamót fyrir Norður-Ameríku, Evrópu, Japan og hugsanlega jafnvel hluta af Norður-Asíu. Með hugtakinu vegamót er ekki aðeins vísað til landfræðilegrar legu, heldur einnig menningarlegra, tæknilegra og viðskiptalegra þátta.``
    Hér kemur það fram að það er ekki aðeins lega landsins sem stuðlar að því að Íslandi geti orðið eftirsóknarverður mótsstaður fólks frá fjarlægum löndum, heldur hafi þjóðin, m.a. vegna góðrar menntunar, möguleika til að verða tengiliður milli ólíkra heimshluta. Og í þessari stuttu umsögn er svo bent á ýmsa kosti landsins vegna hreinleika þess til að hér verði eftirsótt umhverfi til heimsókna gesta sem gera þar miklar kröfur. Jafnframt gefur það möguleika til að framleiða gæðamatvörur sem ört vaxandi eftirspurn er eftir í hinum menguðu löndum. Sem dæmi um viðhorf til þessara kosta má nefna ummæli annars bandarísks gests bændasamtakanna sem sagðist vilja senda sem allra flesta landa sína í afeitrun til dvalar hér í hreinu umhverfi, þ.e. að komast frá hinu mengaða umhverfi andrúmslofts, jarðvegs og matar í umhverfi hreinnar, íslenskrar náttúru þar sem fram væru bornar að mestu leyti hinar hreinu íslensku matvörur. Það er því ákaflega brýnt að sem allra fyrst verði gerð ítarleg úttekt á því hversu mikið er hægt að byggja á því sem fram kemur í framtíðarsýn þessara gesta og annarra sem sett hafa fram svipaðar skoðanir. Hvort við eigum hér slíkan fjársjóð og jafnframt hvað við þurfum að gera til að varðveita hann. Og verði síðan niðurstaðan í samræmi við hinar bjartsýnu vonir, hvernig eigum við þá að halda á málum. Getur sú niðurstaða lagt grundvöll að framtíð þar sem við getum í meira mæli staðið á eigin fótum en ýmsir telja? Er það jafnvel forsenda fyrir því að þessir kostir nýtist okkur a.m.k. í eins ríkum mæli og ella að við höldum sérstöðu okkar?
    Þar sem við þurfum sífellt að taka ákvarðanir bæði á innlendum vettvangi og í erlendum samskiptum sem geta haft afdrifaríkar afleiðingar en verða ekki aftur teknar þá má það ekki dragast að þessi mál verði skoðuð frá öllum hliðum, vegin og metin. Því hef ég ásamt þingmönnunum Jóni Kristjánssyni, Stefáni Guðmundssyni, Pétri Bjarnasyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Valgerði Sverrisdóttur og Finni Ingólfssyni lagt fram eftirfarandi þáltill. á þskj. 23:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd, sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka og aðilar vinnumarkaðarins, til að gera úttekt á þeim möguleikum sem lega landsins og aðrir landkostir í víðtækum skilningi gefa þar sem m.a. verði metin eftirfarandi atriði:
    a. Tækifærin sem lega landsins á krossgötum fjarlægra heimshluta gefa til aukinna viðskipta og þjónustu.
    b. Geta þjóðarinnar til að nýta þessi tækifæri gæti hún þess að halda stöðu til þess og lokast ekki inni innan múra svæðisbundinna hagsmunasamtaka.
    c. Hvað strjálbýlt land gæti orðið gjöful undirstaða að öflugu atvinnulífi verði því haldið hreinu og ómenguðu og þeir kostir nýttir til framleiðslu gæðaafurða og þjónustu.``
    Með þessari þáltill. er ekki lagt til að nefndin efni til mikilla umsvifa til að afla gagna. En vonandi mun Alþingi þegar á yfirstandandi þingi taka ákvörðun um stuðning við einstök verkefni sem geta rennt traustari stoðum undir atvinnulíf okkar.
    Hér á undan var ég að mæla fyrir tillögu um stuðning við vatnsútflutning og einnig má benda á umræðu sem hefur farið fram hér að undanförnu um framleiðslu lífrænna og heilnæmra matvæla eins og ég minntist á áður. Sú vinna sem þegar hefur farið fram á því sviði hefur leitt í ljós að þar bíða mörg verkefni sem brýnt er að fái stuðning. Fengist frekari niðurstaða við vinnu að slíkum verkefnum þá gæti það auðveldað störf þeirrar nefndar sem þessi þáltill. kveður á um að taki til starfa en með skipun hennar er þess vænst að breið samstaða geti skapast í þjóðfélaginu um þá niðurstöðu sem hún kemst að í starfi sínu.
    Á síðustu árum hafa orðið svo gífurlegar breytingar á aðstæðum í heiminum á flestum sviðum að það hlýtur að vera nauðsynlegt að meta okkar stöðu í ljósi þess. Við verðum að gæta þess að láta ekki sefjast hugsunarlaust af málflutningi annarra eða festast í hjólförum fortíðar. Ég vænti þess að hv. alþm. verði sammála um að hér sé um mjög mikilvægt málefni að ræða þar sem brýnt er að sameinast um að komast að farsælli niðurstöðu.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þáltill. vísað til síðari umræðu og allshn.