Vantrauststillaga á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

9. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:07:24 (421)

[15:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 77 höfum við Kristín Ástgeirsdóttir, Finnur Ingólfsson og ég fyrir hönd Samtaka um kvennalista, Framsfl. og Alþb. flutt tillögu um vantraust á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Tillögunni var útbýtt í þingsalnum miðvikudaginn í síðustu viku. Mikilvægt er að umræða um slíka tillögu geti farið fram sem fyrst. Vantrauststillaga er þess eðlis að hún hlýtur að hafa forgang fram yfir önnur mál í þinginu. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til virðulegs forseta hvenær hann hyggst taka tillöguna til umræðu.
    Á þingflokksfundi okkar fyrr í dag kom fram að nokkrir ráðherrar væru erlendis og yrðu erlendis á næstunni svo að algerlega væri óvíst hvenær hægt væri að taka tillöguna til meðferðar. Auðvitað er mjög sérkennilegt og þættu sjálfsagt þó nokkur tíðindi í þeim lýðræðisríkjum, sem við viljum helst bera okkur saman við, að ekki sé hægt að taka fyrir á þjóðþinginu tillögu um vantraust vegna þess að ráðherrar telji sig hafa einhverjum öðrum mikilvægari málum að sinna erlendis en standa á þjóðþinginu og verja gerðir sínar fyrst vantrauststillaga hefur verið flutt.
    Virðulegi forseti. Ég óska þess vegna eftir því að það verði upplýst á forsetastól hvaða ákvarðanir forseti þingsins hefur tekið varðandi umræðu um þessa tillögu og hvenær hún getur farið fram svo að óvissu um málið verði eytt.