Vantrauststillaga á ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar

9. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:21:05 (431)

[15:21]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að gefa hér skýr svör hvað það snertir að ekki standi á Sjálfstfl. í þessu sambandi og hæstv. ráðherran upplýsti jafnframt að hæstv. forsrh. væri í fríi og gæti af þeim sökum væntanlega komið heim til vantraustsumræðunnar.
    Það er auðvitað svo, hæstv. forseti, að það er afar óvenjulegt og sérkennilegt að ekki skuli vera keppikefli ríkisstjórnarinnar að drífa á umræðuna eins fljótt og við verður komið og að ríkisstjórnin skuli vilja hafa vantrauststillögu hangandi yfir sér dögum og jafnvel vikum saman. Ég hygg að það sé algjört einsdæmi í sögunni að ríkisstjórn sé svo illa á sig komin að hún vilji ekki hreinsa það frá þegar formleg vantrauststillaga er komin fram á hana.
    Að lokum, hæstv. forseti, gat ég ekki skilið orð hæstv. fjmrh. öðruvísi en svo að það stæði á Alþfl. Hæstv. starfandi forsrh., hæstv. fjmrh., tók sérstaklega fram að ekki stæði á Sjálfstfl. að drífa umræðuna á og ræða við stjórnarandstöðuna um það. Það er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að vandamálið sé einu sinni sem oftar Alþfl., að það standi á honum, hann sé ekki tilbúinn í þessa umræðu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að snúa málinu til hæstv. utanrrh. og spyrja hæstv. utanrrh.: Stendur á Alþfl. í þessu sambandi? Verða ráðherrar Alþfl. út um dal og hól, lönd og álfur, nk. miðvikudag og fimmtudag? Eða getur hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., séð til þess að ráðherralið flokksins haldi sig heima síðari hluta vikunnar og að vantraustsumræðan geti farið fram af þeim sökum?