Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:30:54 (436)


[15:30]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 27 hef ég borið fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um forgangsröð kennslu erlendra tungumála í grunnskólum. Fyrirspurnin er í tveim liðum. Sá fyrri er svohljóðandi:
    Er menntamálaráðherra því meðmæltur að breytt verði forgangsröð erlendra tungumála sem kennd eru í grunnskólum?
    Í öðru lagi: Er fyrirhugað að breyta fyrirkomulagi kennslu í erlendum tungumálum þannig að hún hefjist fyrr eða síðar en nú er gert ráð fyrir?
    Þetta er fyrirspurnin. Varðandi núverandi tilhögun vil ég nefna, virðulegur forseti, að samkvæmt auglýsingu um fjölda kennslustunda í 1.--10. bekk grunnskóla frá þessu hausti er gert ráð fyrir að kennsla í dönsku hefjist í 6. bekk og kennsla ensku í 7. bekk og frá því til loka grunnskóla er gert ráð fyrir jafnmörgum kennslustundum í þessum tveimur erlendu tungumálum.
    Við þingmenn, geri ég ráð fyrir, fengum allir á liðnu sumri skýrslu nefndar um mótun menntastefnu sem er tímasett í júní 1994. Þar er fjallað um kjarnagreinar í grunnskóla, m.a. að þar verði íslenska, stærðfræði og enska. Og um enskukennslu segir, með leyfi forseta: ,,Aukin alþjóðasamskipti gera kröfur um góða tungumálakunnáttu, ekki síst hjá smáþjóðum. Í því sambandi hefur enskan mikla sérstöðu. Á Norðurlöndum og í mörgum löndum Vestur-Evrópu er enska fyrsta erlenda tungumálið. Mörg börn hérlendis skilja nokkuð í ensku við upphaf skólagöngu. Áhugi barna á erlendum málum beinist því fyrst og fremst að enskunni og sjálfsagt er að virkja þennan áhuga í skólastarfi. Lagt er til að enskan verði ein af kjarnagreinum grunnskólans og að nemendur hefji enskunám þegar í 5. bekk, en kennsla í dönsku hefjist ekki fyrr en í 7. bekk. Við lok grunnskóla þurfa sem flestir nemendur að geta tekið þátt í samskiptum, lesið eða skilið almenna texta á ensku, og komið hugsun sinni í ritað mál.``
    Virðlegur forseti. Síðan er vikið að öðru skyldunámi og þar er sagt m.a.: ,,Einnig þarf að skipuleggja dönskukennslu að nýju þar sem lagt er til að dönskukennsla hefjist síðar en nú er og að danskan verði annað erlenda tungumálið.``
    Nánar er að dönskunni vikið síðar í álitinu þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að dönskukennsla hefjist í 7. bekk og er gert ráð fyrir að heildarstundafjöldi í greininni verði hinn sami og nú er. Með því að færa dönskunámið upp í efri bekki grunnskólans fást fleiri stundir í byrjendakennslu en grundvöllur árangursríkrar tungumálakennslu er stöðugt áreiti og regluleg ástundun í upphafi náms. Með þessu eru taldar meiri líkur á markvissu námi í dönsku. Endurskoða þarf skipulag dönskukennslu og tryggja að fagmenntaðir dönskukennarar beri ábyrgð á dönskukennslu í grunnskólum. Með aukinni hlutdeild fagmenntaðra dönskukennara í unglingadeildum skapast tækifæri til að bæta árangur dönskukennslunnar.``
    Virðulegur forseti. Það er vegna þessa álits og þess sem ég hef vitnað til sem ég tel nauðsynlegt að fá það fram nú hvort hæstv. menntmrh. styður þessa stefnu? Ég get ekki tekið undir hana en mun víkja nánar að því í öðru innleggi mínu hér við umræðuna.