Forgangsröð kennslu erlendra tungumála

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:53:18 (447)

[15:53]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Við deilum þeirri skoðun, ég og hv. fyrirspyrjandi, að danskan sé fallegt mál. Það þykir mér líka. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning vil ég segja að ég hef ekki tekið neina endanlega afstöðu til þessarar tillögu. Ég reyndi að gera grein fyrir rökstuðningi nefndarmanna og sagði að ég gæti að ýmsu leyti fallist á þennan rökstuðning. Það er eðlilegt að ákvæðin um fyrsta erlenda tungumálið komi í aðalnámsskrá en verði ekki sett í lög. Ég sagði hins vegar áðan og get endurtekið það að mér finnst líka eðlilegt að þessi mál verði rædd hér sérstaklega og eftir þessa umræðu, ekki bara núna heldur þá umræðu sem hefur kviknað vegna tillögu menntastefnunefndarinnar, sé kannski rétt að taka um þetta pólitíska ákvörðun þó að hún verði ekki fest í lög.
    Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur orðið og sérstaklega þeim áhuga sem sýnilega er á því að dönskukennslan verði efld. Það er aðalatriðið. Ég veit að það kunna að vera uppi aðrar raddir en þessar til þess að efla dönskukennsluna, m.a. að byrja bara fyrr. En það hefur áður verið reynt eins og hv. þm. Pétur Bjarnason nefndi og virtist ekki skila þeim árangri sem að var stefnt. Ég er sammála því að hrapa hér ekki að neinu en ræða þetta með yfirveguðum hætti og kanna sem best hvernig bæta megi stöðu dönskukennslunnar í landinu.