Húsnæðisaðstaða Fjölbrautaskólans við Ármúla

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 15:55:19 (448)


[15:55]
     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. til hæstv. menntmrh. um húsnæðisaðstöðu Fjölbrautaskólans við Ármúla í Reykjavík á þskj. 32. Það er orðin 20 ára saga sem liggur að baki byggingu Fjölbrautaskólans við Ármúla. Upphaflega var gert ráð fyrir því að þarna yrði byggður gagnfræðaskóli sem verknámshús og þar yrðu fimm álmur. Bygging fór nokkuð rösklega af stað til að byrja með en þó hafa enn ekki verið byggðar nema þrjár álmur við húsið. Árið 1979 fékk skólinn nýtt hlutverk sem fjölbrautaskóli og hefur síðan verið kallaður Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
    Skemmst er frá því að segja að starfsaðstaða bæði nemenda og kennara við skólann er algerlega óviðunandi. Skólann bráðvantar samkomusal, mötuneyti, félagsaðstöðu fyrir nemendur og vinnuaðstöðu fyrir kennara. Ástandið í skólanum er núna þannig að nemendur skólans eru að halda mikla listahátíð, stórmerkilegt framtak, eina stærstu listahátíð sem framhaldsskóli í landinu hefur haldið, en vandamálið er hins vegar það að ekkert húsnæði er til fyrir skólann til þess að halda þessa hátíð. Nemendur hafa því ekki um annan kost að velja en þann að taka á leigu húsnæði fyrir listahátíðina. Listahátíðin stendur í fimm sólarhringa og fyrir leiguna í þann tíma þarf að greiða 120 þús. kr.
    Félagsaðstaða nemenda er slík að þar getur sáralítið félagslíf verið stundað til viðbótar því að í þessum framhaldsskólum eru oft starfandi hinir ýmsu klúbbar þar sem nemendum gefst kostur á að leggja stund á ýmiss konar hagnýtt nám, en engri klúbbastarfsemi er hægt að halda gangandi í þessum skóla vegna þess ástands sem ríkir í húsnæðismálum. Í raun má því segja að það sé neyðarástand í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Og því spyr ég hæstv. menntmrh.: Eru uppi áform hjá menntmrh. um að ljúka við byggingu Fjölbrautaskólans við Ármúla? Ef svo er, hvaða fjármunir eru ætlaðir til þess á árinu 1995 og hvenær er stefnt að að ljúka við byggingu skólans?