Húsnæðisaðstaða Fjölbrautaskólans við Ármúla

10. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:00:58 (450)

[16:00]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Finni Ingólfssyni fyrir að hreyfa þessu máli. Húsnæðismál Fjölbrautaskólans við Ármúla hafa áður verið rædd aftur og aftur á þingi á undanförnum árum og ég hygg að vandinn sé aðallega sá að ekki hefur verið farið í það með skipulegum hætti að ná samstöðu milli ríkisins og sveitarfélagsins Reykjavíkur um uppbyggingu og endurbætur á framhaldsskólunum í Reykjavík almennt. Staðreyndin er sú að aðbúnaður að framhaldsskólum í Reykjavík er miklu verri en annars staðar. Þrengslin eru hrikaleg í öllum skólunum. Við kynntumst því sum fyrir nokkru í iðnskólunum í Reykjavík. Við getum nefnt í þessu sambandi t.d. Menntaskólann við Sund, Menntaskólann við Hamrahlíð, Menntaskólann í Reykjavík og Fjölbrautaskólann í Breiðholti, svo að ég hygg að þegar staðan er skoðuð í þessum skólum sé hún lakari en menn þekkja hér annars staðar. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, til að hvetja hæstv. menntmrh. til að beita sér fyrir því að gerð verði til nokkurra ára endurbóta- og uppbyggingaráætlun fyrir framhaldsskólana í Reykjavík.