Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:22:38 (457)

[16:22]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn. sem er á þskj. 91 og undir álitið rita auk mín hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Finnur Ingólfsson.
    Það er ljóst, hæstv. forseti, að á undanförnum vikum og mánuðum hefur skapast ófremdarástand þar sem heimildir til útgáfu nýrra húsbréfa eru upp gengnar og biðraðir hafa myndast og fjöldi fólks hefur lent í vandræðum af þeim sökum, eins og kunnugt er. Það er auðvitað ótækt að það kerfi sem í gangi er og á að fjármagna jafnóðum fasteignaviðskipti á notaða markaðnum og/eða fyrirgreiðslu til þeirra sem eru að byggja nýtt húsnæði verði skyndilega óstarfhæft sökum heimildarskorts af þessu tagi.
    Við í minni hlutanum styðjum þess vegna að þegar í stað verði veitt lagaheimild til útgáfu nýs húsbréfaflokks og þess sér stað m.a. í því að afgreiðsla þessa frv. er með óvenjuhröðum hætti, en því var, eins og kunnugt er, fyrst vísað til efh.- og viðskn. með formlegum hætti núna í upphafi fundar, um stundarfjórðung yfir kl. 3 í dag. Það verður því ekki við stjórnarandstöðuna eða efh.- og viðskn. að sakast í því efni, að þingið hefur unnið þetta mál með forgangshraða og það er fyrst og fremst með vísan til þess sem ég áðan sagði, að það ríkir ófremdarástand að því leytinu til að heimildir til útgáfu nýrra húsbréfa eru þrotnar.
    Það er hins vegar ljóst að það er við mikinn vanda að etja í húsnæðiskerfinu og þar er að hlaðast upp mikill vandi sem engan veginn sér fyrir endann á. Útgáfa þessa nýja húsbréfaflokks breytir þar litlu um. Þannig liggur fyrir í gögnum sem efh.- og viðskn. hefur fengið og hv. þingmönnum er sjálfsagt kunnugt um, að vanskil hafa stóraukist í húsbréfakerfinu upp á síðkastið og nemur það svo miklu að um fjórðungur húsbréfalána er nú í vanskilum og einstakir útlánaflokkar standa þar jafnvel enn upp úr. Þar má nefna að um 60% allra greiðsluerfiðleikalána frá tilteknu tímabili eru nú í vanskilum.
    Í öðru lagi er skemmst frá því að segja að öll útboð á nýjum húsnæðisbréfum, tilraunir til að bjóða út á markaði húsnæðisbréf, undanfarna mánuði hafa reynst árangurslaus. Það er í raun og veru einfaldast að kalla það því nafni. Í einstaka útboðum hafa selst húsnæðisbréf fyrir fáeina tugi milljóna króna undir þeim vaxtaviðmiðunum sem ríkisstjórnin hefur sett sér, en upp á síðkastið hafa slíkar tilraunir verið með öllu árangurslausar, þ.e. engin ný húsnæðisbréf hafa selst á þeirri ávöxtunarkröfu sem markmið ríkisstjórnarinnar ganga út á og slíkum útboðum hefur nú verið hætt. Með öðrum orðum, Byggingarsjóður ríkisins hefur ekki náð að afla sér neins nýs fjár vegna húsbréfadeildar á eigin vegum með útboði húsnæðisbréfa, alls ekki. Það hefur því verið gripið til þess ráðs að ríkissjóður endurfjármagnar, nýtir í raun og veru í gegnum Lánasýslu ríkisins, lántökuheimildir byggingarsjóðanna og fjármagni er fleytt í gegnum ríkissjóð yfir í byggingarsjóðina. Þannig er kerfið rekið í dag og auðvitað víðs fjarri þeim áformum sem stóðu til þess, að byggingarsjóðirnir fjármögnuðu sig sjálfir eða leystu úr fjármagnsþörf sinni sjálfir með útboðum á markaði.
    Í þriðja lagi eru vextir áberandi hækkandi í kerfinu þessa daga og nægir þar að nefna að ávöxtunarkrafa húsbréfa á eftirmarkaði rýkur upp þessa dagana og hefur á fáeinum dögum, samkvæmt gögnum sem efh.- og viðskn. fékk í morgun, hækkað úr því að vera undir 5%, sumar- eða vormánuðina, í 5,40 í byrjun októbermánaðar, í 5,50 nú fyrir helgina og í morgun fór ávöxtunarkrafan í 5,65% á Verðbréfaþinginu, samkvæmt kauptilboðum sem þar lágu fyrir. Það hefur því á skömmum tíma orðið stökk upp á við í ávöxtunarkröfu húsbréfanna á eftirmarkaði og segir auðvitað sína sögu og talar skýru máli um vaxtaþróunina þessa dagana. Vextir eru hækkandi, bæði á markaðnum en líka vegna einhliða ákvarðana ríkisstjórnarinnar, sem aftur er komin í sitt gamla far og hækkar nú vextina með eigin ákvörðunum, rétt eins og hún gerði í upphafi síns ferils. Við í minni hlutanum gagnrýnum þar sérstaklega þá fráleitu ákvörðun hæstv. félmrh. að hækka vexti á húsbréfalánum við þessar aðstæður, við þessar viðkvæmu aðstæður sem ríkja á markaðnum, en ljóst er auðvitað að ákvörðun hæstv. félmrh. um að hækka ábyrgðargjald á húsbréfum jafngildir samsvarandi hækkun vaxta í því kerfi.
    Í fjórða lagi er rétt að nefna að samkvæmt upplýsingum sem efh.- og viðskn. fékk í morgun er Seðlabankinn kominn í þrot með kaup á ríkisskuldabréfum, pappírum og húsbréfum og hefur haldið að sér höndum upp á síðkastið hvað frekari kaup varðar. Allt þetta eru auðvitað stórkostleg hættumerki á þessum markaði og það væri meira en lítið óraunsæi að horfast ekki í augu við þær staðreyndir sem hér hafa verið raktar og segja auðvitað sína sögu um þetta ástand. Upplýst er að samanlögð nettóeign Seðlabankans á ríkispappírum, þ.e. húsbréfum, ríkisskuldabréfum og ríkisvíxlum, er nú liðlega 25 milljarðar kr. og hefur aukist stórlega á undangengnum mánuðum, þangað til Seðlabankinn treysti sér ekki til að kaupa meira, var kominn í þrot og hefur nú haldið að sér höndum um nokkurt skeið. Þessi eign Seðlabankans skiptist þannig í grófum dráttum að Seðlabankinn á liðlega 4 milljarða kr. í húsbréfum. Seðlabankinn á meira en helming eða um helming af öllum útistandandi ríkisvíxlum sem eru upp á 11,8 milljarða eða tæpa 12 milljarða kr. og í spariskírteinum á Seðlabankinn um 8 milljarða, en af þeim hefur hann að sögn getað endurselt eitthvað til erlendra aðila, fyrst og fremst Norræna fjárfestingarbankans, NIB. Samanlagt gerir þetta, eins og áður sagði, um 25 milljarða sem Seðlabankinn á nettó í slíkum pappírum og eru þá frádregnar innstæður ríkissjóðs hjá Seðlabankanum. Þannig að hér er um nettóstöðu Seðlabankans gagnvart ríkissjóði að ræða. Það er auðvitað ljóst að þegar þessi stóra upphæð er sett í samhengi við aðrar slíkar á peningamarkaði, hvort sem er heldur peningamagn í umferð eða til að mynda rekstrarumfang ríkissjóðs eða niðurstöðutölu fjárlaga, þá er hér er um gífurlega háa fjárhæð að ræða, sem er nálægt því að vera fjórðungur af niðurstöðutölu fjárlaga, sem Seðlabankinn liggur nú með í þessum ríkisbréfum og að hluta til eru þar á ferðinni langtímapappírar sem ekki er auðvelt að afsetja á skömmum tíma.
    Hæstv. forseti. Þetta vil ég láta koma fram í sambandi við þá stöðu, þann mikla vanda sem þarna er að hlaðast upp og talsmenn ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. hefur í umræðum hér að undanförnu gert lítið úr, en er auðvitað afar mikið áhyggjuefni, svo ekki sé nú meira sagt. Þegar allt þetta er lagt saman, hin stórauknu vanskil, sú staðreynd að húsnæðisbyggingarsjóðirnir ná ekki að fjármagna sig á markaðnum með þeim hætti sem ráð var fyrir gert og síðan sú staðreynd að Seðlabankinn er kominn í þrot og getur ekki lengur haldið kerfinu gangandi með áframhaldandi kaupum á bréfum, þá hlýtur öllum að vera ljóst að fram undan eru óvissu- og erfiðleikatímar í þessu efni. Það leita auðvitað ýmsar spurningar á hugann varðandi það til hvaða úrræða sé unnt að grípa og hvort ekki hafi átt sér stað stórkostleg mistök í ákvarðanatöku á þessu sviði á undanförnum missirum. Má þar til að mynda nefna þá ákvörðun að rjúfa samningsbundin tengsl lífeyrissjóðanna við byggingarsjóðina um fjármögnun á byggingarsjóðunum, en það var eins og kunnugt er gert í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Sömuleiðis virðist ljóst að sú ákvörðun sem menn hafa mjög hreykt sér af, að hverfa frá því fyrirkomulagi að ríkissjóði sé heimilt að yfirdraga á reikningi sínum í Seðlabankanum og hann skuli nú og hér eftir alfarið leysa fjárþörf sína með útboðum á markaði, er hluti af þeirri spennu eða þeim vanda sem þarna er að hlaðast upp.
    Þá vekjum við í minni hlutanum athygli á því að í fyrri grein frv. er ríkisstjórnin að óska eftir heimild til viðbótarlántöku fyrir ríkissjóð vegna aukins hallarekstrar á þessu ári, þ.e. þess aukna hallarekstrar sem þegar liggur fyrir upp á 1.250 millj. kr. og er þar að sýna sig að forsendur fjárlaga yfirstandandi árs reyndust fúnar og ótraustar, eins og þegar var bent á af okkar hálfu sl. vetur. Hér er þó eingöngu um að ræða þá umframfjárþörf ríkissjóðs sem þegar er fyrir séð og liggur fyrir á yfirstandandi ári, en það fer auðvitað víðs fjarri að öll kurl séu þar komin til grafar og með öllu óljóst hversu mikill hallinn verður og hversu mikil viðbótarfjárþörf, lánsfjárþörf ríkissjóðs verður þegar upp verður staðið. En hér er farið fram á 1.250 millj. kr. í viðbót.
    Hæstv. forseti. Er fjmrh. farinn úr landi eins og aðrir ráðherrar? Það væri fróðlegt að vita hvort fjmrh. hefur forðað sér úr landi eða er viðstaddur þessa umræðu. Þetta mun heyra undir hæstv. fjmrh. (Gripið fram í.) Er þetta hæstv. fjmrh.? Já. Það er a.m.k. skugginn af honum. Það er mikið ánægjuefni að hæstv. fjmrh. skuli mega hér við bindast og vera í salnum eða nálægt honum og þá er ástæða til að ræða það lítillega frekar, úr því að hæstv. fjmrh. er viðstaddur, að með þessu er auðvitað verið að viðurkenna að forsendur fjárlaga fyrir yfirstandandi ár standast ekki. Þarna vantar verulega upp á. Skýringar á þessu eru að sjálfsögðu ýmsar tíundaðar, þar á meðal þær að ýmis sparnaður sem átti að ráðast í samkvæmt forsendum fjárlaga hefur ekki náðst fram, áform þar um hafa gufað upp. Á það ekki síst við um heilbrrn. sem átti að spara stórar fjárhæðir, sumpart á afar ótraustum forsendum, þ.e. það var ekki vandlega útskýrt hvernig sá sparnaður átti að nást, enda hefur komið á daginn að lítið hefur orðið úr því. En það er í sjálfu sér ekki ástæða til að fjölyrða mikið um þennan þátt málsins á þessari stundu, en auðvitað augljóst mál að stjórnarandstaðan treystir sér ekki til að bera ábyrgð á þessari viðbótarfjárþörf ríkissjóðs frekar en á stefnu

hæstv. ríkisstjórnar almennt í ríkisfjármálum og landsfjármálum ríkisins. Við vísum því alfarið ábyrgðinni á herðar hæstv. ríkisstjórn um þetta atriði, þennan þátt málsins og stjórnarandstaðan boðar í minnihlutaáliti sínu, sem hér er mælt fyrir, að hún muni sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa grein, en styðja, eins og áður hefur komið fram, heimildina sem lýtur að útgáfu nýs húsbréfaflokks.
    Um þetta, hæstv. forseti, er svo ekki þörf af minni hálfu að segja öllu meira. Við tökum ekki ábyrgð á því og vísum í raun allri ábyrgð á ríkisstjórnina á því hvernig þessi mál hafa þróast í tíð hæstv. ríkisstjórnar. Það er alveg ljóst að það eru mörg veikleikamerki í stöðunni eins og hún blasir við um þessar mundir, mjög alvarleg veikleikamerki. Hæstv. ríkisstjórn byggir stefnu sína um þessar mundir einkum og sér í lagi á einu undirstöðuatriði, grundvallaratriði, að sögn, sem gengur eins og --- það má kannski ekki segja rauður þráður, kannski frekar blár þráður í gegnum fjárlagafrv., þ.e. vaxtalækkun. Hæstv. fjmrh. setur það í greinargerð síns frv., nokkrum sinnum á hverri blaðsíðu, að forsendur þessa og forsendur hins séu áframhaldandi lækkun vaxta. En nú blasa hér við gögn, m.a. þau sem ég hef vitnað til að efh.- og viðskn. hefði fengið á fund sinn í morgun, sem öll vísa í gagnstæða átt. Það er veruleg vaxtahækkun í gangi, a.m.k. á skammtímamarkaði og ber þar hæst það sem ég hef vitnað til í sambandi við ávöxtunarkröfu húsbréfa og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sjálfrar um vaxtahækkanir í einstökum tilvikum. Þessa hluti verður hæstv. ríkisstjórn auðvitað að svara fyrir og ekki ástæða til þess af okkar hálfu að fara að bera ábyrgð á því sem snýr að þessari framkvæmd efnahagsstefnunnar frekar heldur en að við höfum á undanförnum þingum stutt fjárlagafrumvörp eða lánsfjárlagafrumvörp þessarar ríkisstjórnar.
    Um þetta held ég, hæstv. forseti, að ég hafi svo ekki fleiri orð á þessu stigi. Mál þessu tengd eiga að sjálfsögðu eftir að vera hér til umræðu og umfjöllunar með ýmsum hætti á næstu dögum þingsins þar sem hér liggja fyrir bæði lánsfjárlög fyrir árið 1995 og fjáraukalagafrumvörp, auk þess sem ríkisreikningar verða hér væntanlega til umræðu. Verður þá í einstökum atriðum farið nánar yfir þá þætti í ríkisfjármálunum hvað varðar peningamál, vaxtastig og annað sem nauðsynlegt er að ræða og úrskeiðis hefur farið hjá hæstv. ríkisstjórn.