Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 16:39:38 (458)

[16:39]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér ekki þörf á að hafa langar umræður við 2. umr. um það frv. sem hér liggur fyrir. Ég tek undir það sem kom fram hjá frsm. 1. minni hluta, að það væri eiginlega ekki hægt að afgreiða þetta mál hraðar frá þinginu heldur en gert var. Það var afgreitt frá nefndinni, að ég held, á sömu 10 mínútunum og því var vísað til hennar hér í atkvæðagreiðslu, sem byggðist á því að við höfðum unnið að því bæði fyrir og eftir helgina.
    Það er samdóma álit nefndarmanna að það beri að flýta fyrir þessari afgreiðslu á lánsheimild til þess að hægt sé að gefa út nýjan húsbréfaflokk. Það er hins vegar, í það minnsta í mínum huga, eilítið á reiki hvernig ríkisstjórnin ætlar síðan að spila þetta mál áfram og það eru strax hættumerki uppi. Við höfum heyrt viðvörunarorð frá fasteignasölum, sem hafa bent á að þessar heimildir verði uppurnar strax í byrjun desember. Það segir kannski mest um stjórnina á peningamálunum að það dugi náttúrlega alls ekki til þeir rúmlega 11 milljarðar sem ætlaðir voru í þetta, 11,8 ef ég man rétt, í lánsfjárlögum síðasta árs. Það dugi ekki heldur til þegar búið verður að hækka þetta upp í rúmlega 15 milljarða. Það mun ekki einu sinni hrökkva til fyrir eftirspurn eftir húsbréfum á þessu ári. Og ég lýsi eftir því við talsmenn núv. ríkisstjórnar og þá hæstv. fjmrh., sem leggur þetta mál fram, þó að að sjálfsögðu heyri húsnæðismálin undir félmrh. --- ég býst ekki við því að hv. þm., fyrrv. félmrh., sem hér er í salnum, muni fara að svara fyrir ríkisstjórnina í þessu máli, en er henni þó líklega málið skyldast. En ég hlýt að lýsa eftir því hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að stýra þessum málum áfram. Það er alveg ljóst að á síðasta ári gáfust menn upp við að láta markaðinn stýra húsbréfakerfinu. Það hafði einfaldlega sýnt sig að það gekk ekki upp, byrjunarörðugleikarnir voru það miklir. Menn tóku húsbréfalán þrátt fyrir óheyrileg afföll sem kemur fram í því að nú er fjöldi fjölskyldna í landinu er með drápsklyfjar á bakinu vegna þess að húsbréfin voru svo ódrjúg, afföllin fóru langt fram úr öllu velsæmi vil ég segja. Þegar ríkisstjórnin bjó til 5,00% regluna, þ.e. að fjármagn sem ríkið mundi sækja á hinn almenna markað mætti ekki fara yfir 0,00% ávöxtun eða vexti og húsbréfin voru sett niður í nánast sama vaxtastig með því sem ég vil kalla handafl, gaf náttúrlega auga leið að eftirspurnin mundi stóraukast. Ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar áfram að viðhalda þessu vaxtastigi. Auðvitað er það gott að geta haft lægri vexti og þá spyr ég hæstv. ríkisstjórn hvernig hún ætlar þá að svara þeirri eftirspurn eftir lánsfé í húsnæðiskerfi sem þessu fylgir óhjákvæmilega.
    Á fundum nefndarinnar og sérstaklega með Eiríki Guðnasyni seðlabankastjóra í morgun hefur komið fram að Seðlabankinn er kominn í þrot. Af þeim 11,8 milljörðum sem hafa verið gefin út af húsnæðisbréfum á þessu ári hefur Seðlabankinn keypt 4 og situr uppi með það og engin hreyfing er á þeim pappírum. Mér sýnist því miður að alvarleg teikn séu á lofti í vaxtamálum og nú sé að koma fram að sá grundvöllur sem byggður er á haldi ekki öllu lengur. Ég vek athygli á að ekki er verið að tala um vexti á skammtímakröfum. Hér er verið að tala um vexti á langtímabréfum og ávöxtun þeirra. Í mínum huga er verulegt áhyggjuefni hvernig þessi mál þróast á næstunni.

    Einnig er afar sérstætt að hlusta á talsmenn fjmrn. tala um það að nú hafi það allt í einu gerst að ríkið sitji ekki lengur eitt að þessum markaði, þ.e. að gefa hér út verðbréf á innlendan peningamarkað. Allt í einu hafi dúkkað þar upp nýir aðilar sem voru bæði sveitarfélög og fyrirtæki í landinu. Auðvitað var fyrirséð að þetta mundi gerast. Auðvitað gat það ekki gerst að ríkið segði með hótunum eins og gert var í fyrra: Við viljum ekki hafa hærri ávöxtun á þeim peningum sem við erum að kaupa en 5%. Eftir sem áður, og það hef ég margoft sagt hér úr þessum ræðustól, voru fyrirtækin með skammtímafjármögnun sína að borga 12--14% vexti. Að sjálfsögðu hafa betur þau fyrirtæki sem eru betur stödd og njóta góðs trausts úti á lánamarkaði, að sjálfsögðu hafa þau komið, fylgt í kjölfarið og þykjast hafa himin höndum tekið að geta tryggt sér skammtímafjármögnun á milli 6 og 7% vöxtum í staðinn fyrir þessa 12--14 sem þau voru að borga í bankakerfinu. Mér finnst þetta út af fyrir sig af hinu góða og þetta virðist hafa verið hið eina sem bankarnir skildu varðandi vaxtastefnu sína. Hinn flöturinn á þessum peningi er að þetta skilur þau fyrirtæki sem hafa ekki burði til þess að fara út á hinn almenna markað og selja þar bréf eftir í erfiðari stöðu en áður en ég ætla ekki út í að frekar hér.
    Virðulegur forseti. Nefndin hefur m.a. kallað til sín fulltrúa frá húsnæðismálastjórn og ég verð að segja það sem skoðun mína að eftir þá fróðlegu yfirferð að það styrkti mig í þeirri trú að húsbréfakerfið sé ansi vanburðugt enn þá og menn hafa verið allt of fljótir að lýsa því yfir strax á fyrstu dögum þess að þarna væri komin hin eina og sanna patentlausn fyrir húsnæðiskerfi okkar og það var búið að ýta því fullsköpuðu úr vör. M.a. kom fram hjá fulltrúum húsnæðismálastjórnar að 15% af því greiðslumati, sem hefði farið fram, væri nánast algerlega út í hött. Þetta voru tölur sem þeir höfðu beint fyrir sér en þeir óttuðust að þær væru í raun miklu hærri og eftirlitið og framkvæmdin að þessu hefði ekki verið sem skyldi. Það er nokkuð seint, virðulegur forseti, að þetta sé að koma upp á yfirborðið fyrst núna, ekki síst vegna þess að því miður hefur maður séð að allt of margir lántakendur hafa tekið greiðslumatið sem einhverja tryggingu fyrir því að þeir gætu nú staðið undir svo og svo mörgum milljónum að láni. Það virðist hafa mistekist í offorsinu við að kynna þetta dýrðarinnar kerfi sem átti öllu öðru að hafa tekið fram og var keyrt fram af offorsi til þess að reyna að sína fram á hina miklu galla 86-kerfisins. Það offors leiddi m.a. af sér að þessi kerfi voru keyrð samtímis sem íþyngdi húsnæðiskerfinu óhóflega meðan það átti sér stað. En við skulum vona að mönnum takist að sníða af þessu verstu agnúana á næstunni og ekki ætla ég að mæla með því að við tökum eina kollsteypuna enn í húsnæðismálum. Ég mæli frekar með því að menn reyni að sníða mestu vankantana af húsbréfakerfinu og koma því á þá fætur að það geti farið að lifa sjálfstæðu lífi eins og það var kynnt fyrir okkur þegar var verið að koma því á á sínum tíma.
    Fyrir helgina var nokkur umræða um ríkisábyrgð eða ekki ríkisábyrgð á húsbréfum. Ég ætla ekki að fara út í hana frekar en ég held að mjög nauðsynlegt sé að fara í gegnum þá umræðu þannig að menn átti sig á því hvað menn eiga við þegar þeir tala um það að ríkisábyrgðin tryggi meiri jöfnuð, bæði milli tekjuhópa og landshluta. Ef ríkisábyrgðin á að gera það í sjálfu sér gerist það ekki á annan hátt en þann að ríkið sé þá tilbúið til þess að koma með peninga inn í kerfið sem nemur því sem lánað hefur verið umfram það sem markaðurinn stæði undir ef viðkomandi eignir yrðu seldar aftur. Ég sé ekki að það geti gerst á annan hátt. Þá verða menn að taka þá pólitísku afstöðu og þá ákvörðun að svo skuli það vera. Að öðrum kosti sé ég ekki á hvern hátt ríkisábyrgðin geti gagnast þessum hópum.
    Mér barst í dag bréf sem formanni efh.- og viðskn. frá Grétari J. Guðmundssyni, rekstrarstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins, þar sem hann vill koma því á framfæri að ekki sé til neitt það nefndarálit sem hv. 12. þm. Reykv. vitnaði í í umræðunum fyrir helgina. Slíkt nefndarálit hefur ekki verið gefið út en sú nefndarvinna mun vera í gangi og væntanlega hefur hv. þm., sem fyrrv. félmrh., haft aðgang að þeim gögnum sem við almennir þingmenn höfðum ekki og sýnir kannski að oft er erfitt að standa á þeim landamærum sem hv. þm. stendur á núna. --- Ef hv. þm. heyrði það ekki áðan var ég að vitna í bréf sem mér hefur borist frá Grétari J. Guðmundssyni varðandi það að það nefndarálit sem hv. þm. vitnaði í fyrir helgina væri ekki til því að nefndin hefði ekki lokið störfum. Þar væri þó ekki hægt að vitna í neitt nema mismunandi skoðanir einstakra nefndarmanna en í bréfinu kemur fram að nefndin er ekki sammála og ekki samstiga í málinu og það er í raun skoðun minni hlutans, sem hv. þm. var að túlka. Þetta eru gögn sem eru okkur almennum þingmönnum ekki tiltæk en hv. 12. þm. hefur væntanlega haft aðgang að þar sem það er svo ógnarstutt síðan hv. þm. bar sína ábyrgð á framkvæmdarvaldinu og þessari okkar blessaðri ríkisstjórn.