Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:18:08 (464)


[17:18]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. hafði um það mörg orð að ráðherrar Alþfl. væru ekki viðstaddir. Nú veit þingmaðurinn að það er mjög algengt þegar við fjöllum um lánsfjárlög og lánsfjáraukalög að fjmrh. er viðstaddur. Ég verð að viðurkenna að ég óskaði ekki eftir því að starfandi ráðherra mætti hérna en ég vil láta það koma fram að félmrh. er erlendis við skyldustörf og af því að hv. 9. þm. Reykv. hefur verið félmrh. sjálfur þá veit ég að hann skilur það mjög vel að stundum koma þær stundir að menn þyrftu helst að vera bæði heima og heiman.
    Aðeins vil ég líka láta það koma fram vegna þess sem hann lét getið um afföllin, húsbréfaútgáfan fór úr 11,5 milljörðum í 15,2 milljarða án þess að afföll ykjust verulega eða neitt að ráði og það er vegna þess að Seðlabanki keypti húsbréf og er, eins og réttilega hefur komið fram hér, með bæði húsbréf og húsnæðisbréf í sinni vörslu. Það kom fram hjá fulltrúum Seðlabanka á fundi nefndarinnar í dag að húsbréf eru stærsti verðbréfaflokkur á markaði hér núna og þess vegna mjög eðlilegt að Seðlabankinn komi inn í kaupin og þá er vissulega hægt að reikna sem svo að ef Seðlabankinn er búinn að kaupa mikið og eftirspurn verður mikil eftir þessa afgreiðslu þá aukist afföllin enn. En þá vil ég láta þess getið að það kom líka fram á fundi í efh.- og viðskn. í dag að með breyttu mati sem hefur verið unnið að síðan húsnæðisnefnd óskaði eftir því fyrr í sumar þá er búist við að dragi ákveðið úr eftirspurn eftir húsbréfum. Þannig að það er ekki reiknað með að það verði þörf á jafnstórum húsbréfaflokki næsta ár.
    Ég vil líka láta þess getið hér, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að þegar húsbréfin voru sett á þá var reiknað með að markaðurinn hefði mjög mikil áhrif á eftirspurn eftir þeim vegna eðlis þeirra . . .  
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að grípa fram í fyrir hv. þm.)
    Ég verð bara að koma aðeins inn á það síðar, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.