Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:22:44 (468)

[17:22]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi foreti. Það liggur fyrir og viðurkenna allir nema hæstv. fjmrh. að þær ákvarðanir sem teknar hafa verið að undanförnu í þessum efnum af ríkisstjórninni og ákvarðanaleysi líka að því er þessi mál varðar munu hafa það í för með sér að fjármagnskostnaður á Íslandi mun á allra næstu vikum og mánuðum fara hækkandi. Í fyrsta lagi er það vegna þess að menn hafa ákveðið að leggja á þetta tryggingagjald. Í öðru lagi vegna þess að menn hafa haldið þannig á málunum í sambandi við húsbréf að þar hefur myndast stífla og þegar hún loksins brestur þá hefur það í för með sér að afföll verða meiri. Loks liggur það fyrir að þessi gífurlegu kaup Seðlabankans á ríkispappírum að undanförnu upp á 25 millj. kr. eru í raun og veru opinber íhlutun, handaflsaðferð við að halda niðri vöxtum.
    Það er því alveg augljóst mál að ef Seðlabankinn getur ekki bætt neinum pinklum við sig á þessu sviði þá liggur það fyrir, ef svo fer fram sem horfir, að hér getur orðið vaxtahækkun. Ríkisstjórnin stendur þannig frammi fyrir því að það flagg sem hún ætlaði að fara með til kosninga um lækkandi vexti dugir henni ekki nokkurn skapaðan hlut.