Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:27:54 (471)

[17:27]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ekki mikið sem þarf að bæta við þessa umræðu sem hér hefur farið fram eða þegar við fórum í gegnum 1. umr. um þessi mál. Það hefur komið mjög skýrt fram í báðum þessum umræðum af hverju hefur þurft að fara út í að gefa út stærri húsbréfaflokk en var áætlað í byrjun þessa árs. Það er alveg ljóst að vaxtalækkunin í nóvember sl. á þar verulegan þátt í. Líka finnst mér ástæða til að árétta vegna þeirra vanskila sem eru nú í húsbréfakerfinu að það kom mjög skýrt fram á fundi í efh.- og viðskn. hjá talsmönnum Húsnæðismálastofnunar að m.a. er skýringin sem gefin er á auknum vanskilum auðvitað erfiðleikar hjá fólki, tekjur fólks hafa lækkað. Kröfur frá Húsnæðisstofnun eru ekki sendar í lögfræðing fyrr en að fjórum mánuðum liðnum þannig að þar er meiri sveigjanleiki og fólk getur þá frekar greitt upp skuldir sínar t.d. við bankastofnanir. Þetta segir okkur líka, af því að margir tala fyrir því að taka ríkisábyrgð af húsbréfum og setja þau inn í bankakerfið, hvernig það yrði ef húsbréfin færu inn í bankakerfið og íbúðarkaupendur þyrftu að sæta því sem þar er að vanskil og annað fer í lögfræðing eftir stuttan tíma.
    Ég ætla út af fyrir sig ekki að ræða hér ríkisábyrgðina. Hún var rædd um daginn og það bréf sem hv. formaður efh.- og viðskn. las upp staðfestir raunverulega að þeir fulltrúar sem voru í nefndinni sem kannaði kosti og galla þess að afnema ríkisábyrgð, þ.e. fulltrúar félmrn. og Húsnæðisstofnunar, eru þeirrar skoðunar að það sé ekki heppilegt og gæti m.a. leitt til mismunandi lánshlutfalls t.d. milli kjördæma.
    Það er tvennt sem mér finnst ástæða til að fara nokkrum orðum um og það hefur reyndar 9. þm. Reykv. gert líka. Það eru bæði vextirnir og líka hvort ríkisstjórnin hafi einhver áform um að koma meira

til móts við þá sem eru í miklum greiðsluerfiðleikum og vanskilum. Það kom fram í morgun á fundi efh.- og viðskn. hjá seðlabankastjóra Eiríki Guðnasyni þegar hann var spurður út í þau áform sem m.a. hæstv. félmrh. hefur látið uppi um að lengja lánstímann úr 25 árum í 40 ár og var ekki annað að heyra á seðlabankastjóra en að hann tæki undir aðvaranir mínar um að svo gæti farið að slík bréf til 40 ára yrðu illseljanleg og ekki markaðshæf og mundu stuðla að meiri afföllum. Það er ljóst að greiðslubyrði mundi lækka ársfjórðungslega um 3.000 kr. ef farið yrði í lengingu á lánstímanum en ef þetta kemur svo allt fram í auknum afföllum þá er spurning um hvort rétt sé að fara af stað með það.
    Þegar þetta liggur fyrir frá seðlabankastjóra þá er ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh.: Ef menn meta það svo að ekki sé rétt að fara út í þessa lengingu á lánstíma af þeim sökum sem ég hef hér nefnt er þá eitthvað annað uppi á borðinu sem ríkisstjórnin hyggst grípa til til að létta undir með fólki sem er í miklum erfiðleikum vegna t.d. minnkandi atvinnutekna?
    Það er heldur ekki boðlegt sem hæstv. ráðherra sagði við 1. umr. málsins að hann væri opinn fyrir því að skoða það að létta greiðslubyrði hjá fólki með því að hækka lánshlutfallið upp í 75 eða 80%. Vegna þess að í næstu setningu sagði hæstv. ráðherra að hann teldi að það yrði að gerast án þess að auka útgáfu á húsbréfum. Ég spyr þess vegna: Er eitthvað annað uppi á borðinu og mun ríkisstjórnin skoða það að finna leiðir til að koma til móts við þetta fólk? Ég hef t.d. nefnt að útvíkka þá heimild sem er fyrir hendi um skuldbreytingu.
    Varðandi vextina þá hafa náttúrlega átt sér stað fróðlegar umræður um það mál hér og eins í fjölmiðlum. Það hafa verið mjög skiptar skoðanir um það hjá bankamönnum og mönnum í viðskiptalífinu varðandi skammtímavextina og hvort þeir þurfi að hækka eða eigi að lækka. Ég held að það sé nokkurt samhengi á milli þess þegar t.d. ávöxtunarkrafa af húsbréfum er núna að fara upp í 5,65% í morgun, sem menn hljóta að hafa verulegar áhyggjur af, og þess að fjárfestar fái miklu betri ávöxtun á skammtímamarkaði og séu þar af leiðandi að losa um húsbréf til að ávaxta sitt fjármagn á skammtímamarkaði. Ég spyr hvort hæstv. fjmrh. hafi ekki áhyggjur af því að það hafi veruleg áhrif á langtímapappíra eins og húsbréfin og spariskírteini ríkissjóðs þegar ávöxtun á skammtímamarkaði er með þeim hætti að það má leiða að því líkur að fjárfestar séu að losa um langtímabréfin til að fjárfesta í skammtímabréfum.
    Mér finnst það nokkuð alvarlegt ef það getur verið að lífeyrissjóðirnir séu að þessu í einhverjum mæli og þar með að stuðla að auknum afföllum á húsbréfamarkaði. Það kom einmitt fram í morgun að það er töluvert um að þeir sem eiga fjármagn fari með það á erlendan fjármagnsmarkað vegna þess að um 6 milljarðar hafa farið á erlendan markað frá janúar þar til í septembermánuði.
    Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. að þessu tvennu: Er eitthvað annað uppi á borðinu til að aðstoða fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum að því frágengnu að niðurstaðan verði sú að 40 ára lánstími gangi ekki upp? Í annan stað þá spyr ég hæstv. ráðherra um samhengið á skammtímamarkaðnum varðandi vextina og varðandi langtímamarkaðinn sem eru húsbréf og spariskírteini ríkissjóðs og hvort hann óttist ekki að þarna sé samspil á milli, það sé verið að losa um fjármagn inn á skammtímamarkaðinn með þeim afleiðingum að afföllin af húsbréfunum hækki til að mynda.
    Ég segi þetta vegna þess að það er alveg ljóst að ekki hefur verið mikið um framboð á húsbréfum að ræða, þ.e. nýjum bréfum. Það er alveg ljóst að það sem menn hafa nefnt skúffubréf, sem menn hafa átt í húsbréfum sem þeir hafa ávaxtað og geymt, virðist vera að losna um með einum eða öðrum hætti núna á markaðnum til þess að þeir sem eiga fjármagn í húsbréfum geti þá frekar ávaxtað það í skammtímabréfum. Ég hef áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif til hækkunar á ávöxtun og á afföll af húsbréfum.