Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:40:59 (474)

[17:40]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það væri fróðlegt að fá að vita hjá hv. þm. hvað felst í þessari greiðsluaðlögun sem verið var að semja frv. um í tíð þingmannsins í ráðherrastóli félmrh.
    Í öðru lagi, þegar talað er um skuldbreytingar við það fólk sem er í vanskilum við Húsnæðisstofnun, þá er væntanlega verið að tala um að gefa út ný húsbréf. Og þá komum við að því að við erum að gefa út ný húsbréf þar sem verið er að selja á markað og afföllin af þeim verða þannig að menn eru að fá aftur afföll á vanskilin af þeim bréfum sem fólk er þó búið að vera að selja með afföllum. Er þetta nú heillavænleg leið fyrir það fólk sem er í bullandi greiðsluerfiðleikum vegna minni atvinnutekna? Og er það nú leið fyrir ungt fólk sem er að byggja í fyrsta skipti og hefur misst sumt hvert vinnuna, annað mjög stóran hluta sinna tekna, að tala um að hækka lánshlutfallið? Hækkað lánshlutfall þýðir auðvitað hærra lán sem þetta fólk lendir síðan í erfiðeikum við að greiða.
    Vandamálið er kerfið sjálft og það lýsir sér best í því að markaðurinn ræður ekki við nema með skelfilegum afföllum bréf á húsnæðismarkaðnum sem eru til 40 ára.