Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 17:42:32 (475)

[17:42]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við ræddum töluvert um greiðsluaðlögun á síðasta þingi og ég man ekki betur, og gæti mig misminnt, að það hafi verið lögð fram drög að skýrslu um þetta á lokadögunum á síðasta þingi. Hér er um að ræða aðferð sem bjargar alls ekki öllum sem eru í greiðsluerfiðleikum heldur er fyrst og fremst um að ræða leið sem hjálpar þeim sem eru komnir svo langt út af skilgreindum aðstæðum að það fólk er að missa sína íbúð. Þetta mál var það mikið rætt að ég held að hv. þm. ætti að vita um hvað menn eru að tala.
    Þegar við erum að tala um skuldbreytinguna þá erum við að tala um hana hjá fólki sem býr við veruleg vanskil vegna þess að það er að missa vinnuna. Þá hefur verið farin sú leið að það hefur fengið að fresta greiðslum í 2--3 ár. Það sem hefur þá safnast upp hefur síðan bæst við höfuðstólinn og lengt lítillega lánstímann. Þetta hefur bjargað mörgum. Ég hef frétt það á ýmsum stöðum að þessi leið hafi bjargað mjög mörgum og það er þessi leið sem ég vil skoða hvort ekki sé hægt að útvíkka við þessar aðstæður.
    Varðandi það að fara með lánin upp í 70% segir þingmaðurinn að fólk getur ekkert frekar borgað af því. Þá bið ég þingmanninn að horfa á það að við erum einungis með 65% eins og er fyrir þá sem

eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Þá þarf fólk, ef það á ekki sparnað á móti upp í íbúðaverðið, að fara inn í bankakerfið og fá þar lán sem upp á vantar með miklu hærri vöxtum en eru núna í húsbréfakerfinu. Þess vegna hlýtur greiðslubyrðin í heild að léttast hjá fólki sem er að kaupa sína fyrstu íbúð ef við höfum svigrúm til þess að hækka lánshlutfallið. Ég held einmitt að það sem við höfum farið út í sem er skammtímalán í bankakerfinu allt þar til húsbréfakerfið kom hafi einmitt sett hengingarólina á marga sem hafa síðan lent í vanskilum með sín íbúðarlán.