Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 18:11:15 (479)

[18:11]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég sagði ekki eitt orð um það að málin væru einföld. Það sagði ég ekki. Ég þekki sögu þessara húsnæðismála alveg ágætlega eins og hv. þm. Ég benti hins vegar á þá staðreynd að afföllin urðu eins og raun bar vitni. Um langt, langt árabil voru þau svona mikil og þess sér auðvitað víða stað og þar á meðal í erfiðleikum fólksins. Ég er ekki sammála hv. þm. um það að biðlistarnir, eins og þeir voru í hinu illræmda 86-kerfi, hafi verið sambærilegir við afföll eða áhrifin af þeim. Það gat verið einstaklingsbundið, en þeir sem kunnu fótum sínum forráð fjárfestu ekki fyrir fram heldur undirbjuggu sig fyrir þau kaup í takt við það hvenær þeir fengju lán. Þeir komu auðvitað miklu betur út úr því kerfi. Það er alveg augljóst mál. Afföllin lentu á öllum. Öllum. Það komst enginn undan þeim sem þurfti að fara í gegnum húsbréfakerfið á meðan þau voru við lýði í því kerfi.

    Hv. þm. gat ekki verið óheppnari þegar talað var um að síðan kæmi viðbótarkostnaðurinn, það mætti telja hann fram í sambandi við vaxtabæturnar. En hvað var gert við vaxtabæturnar, hv. þm.? Það voru einmitt þær sem voru skertar á sama tíma af þeim hv. þm., þáv. hæstv. félmrh., sem var búinn að sverja og sárt við leggja að það skyldi aldrei verða, því vaxtabæturnar væru ein fasta stærðin í málinu og kæmu inn í greiðslumatið og það er auðvitað rétt.
    Um innri fjármögnunina má alltaf deila, en ég held að alveg ljóst sé að hún hefur ekki orðið sú sem ætlunin var og talað var um gagnvart viðskiptum á notaða fasteignamarkaðnum. Þar held ég hins vegar að húsbréfin hefðu átt rétt á sér og eigi rétt á sér, en meginmistökin, að mínu mati, liggja í því að byggja átti áfram á fastlánakerfi gagnvart nýbyggingum. Húsbréfakerfið hefði að mínu mati getað þróast sem eðlilegur hluti af húsnæðislánafyrirkomulaginu, ef það hefði verið bundið við notaða markaðinn, en menn áfram byggt á kerfi sem hentaði nýbyggingunum.