Lánsfjáraukalög 1994

12. fundur
Mánudaginn 17. október 1994, kl. 18:14:40 (481)

[18:14]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Við þurfum meiri tíma en gefst í andsvörum til að ræða þessi mál, en ég tel mig ekkert vera á hálli ís heldur en hæstv. fyrrv. félmrh., sem skautar hér um í þessari umræðu og reynir að skjóta sér algjörlega undan þeirri ábyrgð sem hv. þm. ber auðvitað á ástandinu í húsnæðiskerfinu. Það kalla ég að vera illa skædd á ísnum.
    Ég er ekki að mæla með eða færa fram einhverja kosti eða eitthvert ágæti 86-kerfisins og það er auðvitað alveg ljóst að eins og ástandið var í því þegar það var verst, þá voru auðvitað óþolandi biðlistar eftir því. En hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir má ekki gefa sér það að hver einn og einasti maður sem byggði eða keypti húsnæði á þeim tíma hafi ekki kunnað fótum sínum forráð, hann hafi rokið til og keypt dýrt húsnæði og fjármagnað það með einhverjum skammtímalánum í bönkum og í vanskilum og með lögfræðikostnaði o.s.frv., eins og hv. þm. gerði hér. Það var nefnilega ekki þannig. Við vitum vel að stór hluti af þeim biðlista var nánast eins og skráning á þann lista. Síðan biðu menn eftir því að röðin kæmi að þeim. Og þó að þeir fengju þá lægra lánshlutfall þá voru það hagstæðari lán, miklu hagstæðari lán (Gripið fram í.) því þau voru bæði á lægri vöxtum og til lengri tíma, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Það er staðreynd sem hv. þm. hefur gengið illa að átta sig á, að sá hluti fjármögnunarinnar var, þegar hann kom, mikið hagstæðari heldur en húsbréfin. Mikið hagstæðari. Og ef menn áttu þá að einhverju leyti fyrir mismuninum þá gat það dæmi auðvitað komið mjög vel út. Við skulum fara í gegnum þessa umræðu, hv. þm. Og eitt er alveg örugglega staðreynd, að þegar verst lét og afföllin í húsbréfakerfinu með kostnaði voru komin upp í 25% --- dettur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í hug að verja það ástand sem þá varð til? Þegar menn fóru og tóku 4 millj. að láni og fengu 3 í hendurnar til að borga sinn byggingarkostnað. Við erum með þúsundir fjölskyldna úti um allt land sem eru skrifaðar fyrir 4 eða 5 millj. en fengu aldrei nema 3 / 4 af því. Er það kerfi sem menn geta mælt með?