Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 13:49:40 (489)

[13:49]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Sú tillaga til þál. um afnám tvísköttunar á lífeyri hefur reyndar komið fram áður og fengið nokkra umræðu hér í þinginu, verið vísað til efh.- og viðskn. og ekki fengið þar afgreiðslu. Það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að Sjálfstfl. ber að vissu leyti nokkra ábyrgð á þeirri tvísköttun sem í núv. skattakerfi felst. Þegar persónuafslátturinn var ákveðinn á sínum tíma þá átti að taka tillit og var tekið tillit til þeirra þátta er sneru að þessari tvísköttun, þannig að persónuafslátturinn gerði ráð fyrir því að í gegnum hann yrði þessi tvísköttun í raun og veru afnumin. Nú hefur það hins vegar gerst og sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar að persónuafslátturinn hefur verið lækkaður, þannig að þau atriði er þarna voru tekin inn á sínum tíma eru ekki lengur til staðar. Því má segja að það sé fyllilega eðlilegt að flytja tillögur í þessa veru, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og fleiri þingmenn Sjálfstfl. hafa hér gert. Hins vegar veltir maður auðvitað fyrir sér forminu og þar tek ég undir með hv. 8. þm. Reykn. Af hverju ekki að fara beint í það að flytja frv. til laga um breytingu á tekjuskatti og eignarskatti til að ná þessu fram og fá þannig vilja þingsins skýran til þessa ákvæðis?
    Tillagan í sjálfu sér til þál., gerir lítið annað, þó hún yrði samþykkt, en að lýsa vilja þingsins til þessara hluta, síðan gæti það dregist langan tíma að eitthvert frv. yrði samþykkt eða kæmi kannski fram á þinginu frá hæstv. fjmrh. Þar fyrir utan eru það ekki mjög flóknar breytingar sem gera þarf á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt til að ná þessu ákvæði fram, þau standa ein og sér alveg sjálfstæð í frv. og hefðu þar af leiðandi ekki nein önnur áhrif innan gildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt.
    Við þingmenn Framsfl. fluttum á síðasta þingi frv. til laga um séreignarréttindi lífeyris, um séreignarsjóðinn. Í því frv. var gert ráð fyrir að þessi tvísköttun væri afnumin með því að skattleggja ekki inngreiðsluna í lífeyrissjóð eða séreignasjóð, en gert ráð fyrir því, til þess að mæta tekjutapi sem af þessu yrði, til að styrkja stöðu lífeyrissjóðanna, þá þyrfti jafnvel að hækka lífeyrissjóðsframlagið úr 10 í 13%. Fyrir launamanninn skipti það ekki máli þar sem tvísköttunin væri afnumin, það kæmi í raun og veru eins út. Þannig að sá vilji sem kemur fram í þessari þáltill. er auðvitað yfirlýsing um skattalækkanir. En þá þyrftu sjálfstæðismenn, áður en þeir færu út í slíkan tillöguflutning, að rifja upp: Hverju lofuðu þeir þjóðinni og hvaða leið vildu þeir fara fyrir alþingiskosningarnar 1991? Jú, þeir ætluðu að lækka skattprósentu einstaklingsins í tekjuskatti úr 39,79% niður í 35%. Þeir ætluðu að hækka skattleysismörkin. Allt þetta hefur í raun og veru verið svikið. En það er virðingarvert, og ég virði það við hv. þm., að hann skuli með þessari þáltill. reyna að ná fram skattalækkunum og það er auðvitað hægt að taka undir það með hv. þm., en lagafrv. hefði verið eðlilegri leið.
    Nú er það svo að á þskj. 47, sem er 47. mál þingsins, liggur fyrir frv. frá Kvennalistanum um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem gerir einmitt ráð fyrir nákvæmlega því sama og þessi þáltill. hv. þm. Sjálfstfl., þ.e. að afnema tvísköttunina með því að skattleggja ekki inngreiðsluna í lífeyrissjóð. Þannig að frv. liggur fyrir í þinginu og þá er auðvitað eðlilegast að það komi hér til atkvæða mjög fljótlega og þá verði úr því skorið hvort þingmeirihluti er fyrir þessu. Ég þykist vera viss um að þessi till. til þál. hafi verið rædd í þingflokki Sjálfstfl. og þar sé meiri hluti fyrir því að gera þessar breytingar. Nú er hins vegar sá galli á þessu frv. Kvennalistans að það er einvörðungu gert ráð fyrir því að þetta nái til inngreiðslna í lífeyrissjóði hjá launamönnum. Það er ekkert tillit tekið til sjálfstætt starfandi atvinnurekenda. Það get ég upplýst hér að við þingmenn Framsfl. höfum í hyggju að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt, nr. 75/1981, sem taki einmitt á þessum tveimur þáttum. Annars vegar inngreiðslum í lífeyrissjóði frá launamönnum og hins vegar inngreiðslum í séreignarsjóði lífeyrisréttinda eða í lífeyrissjóði frá sjálfstætt starfandi atvinnurekendum. Ég trúi vart öðru en að hv. þm. Sjálfstfl. geti stutt það, þar sem till. þeirra til þál. gerir ráð fyrir því, ef ég les hana rétt, að jafnræði ríki, og verði tekið tillit til þeirra hluta þegar lagafrv. verði samið, að jafnræði ríki milli þess hvort menn eru að greiða í séreignarsjóði eða í lífeyrissjóðina, þannig að það sé alveg klárt að þarna sé ekki verið að mismuna eftir því hvort menn eru sjálfstætt starfandi atvinnurekendur eða launamenn.
    Ég get auðvitað ekki gert neitt annað en að fagna þessari þáltill., en það er miklu eðlilegra að sýna málið í alvörubúningi hér í þinginu, þannig að þingið geti tekið tillit og afstöðu til þeirra hluta sem hér er verið að boða.