Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 13:56:21 (490)

[13:56]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að það skuli vera á það bent af ræðumönnum að þessi málafylgja hér af hálfu Sjálfstfl. er mjög sérstæð. En það breytir ekki því að ég er ekki að finna að því að einstakir þingmenn séu að reyna að ýta við málinu, en sú aðferð sem beitt er er allkynleg í ljósi þeirrar viljayfirlýsingar Alþingis sem lá fyrir frá þinginu vorið 1991, á 113. löggjafarþingi, þegar samþykkt var þáltill. sem þáv. varaþm. Sjálfstfl., Guðmundur H. Garðarsson, hafði flutt og flutt oftar en einu sinni, að mig minnir, í þau fáu skipti sem honum var hleypt hér inn á Alþingi á þeim tíma. En eins og menn muna þá var þessi hv. þm. og varaþm. sjálfstæðismanna á þessu kjörtímabili ekki á hægra brjóstinu hjá því þingliði sem réði því hvort hann kæmist inn á Alþingi eða ekki og sáum við ýmis dæmi þess á þingum á síðasta kjörtímabili. En það er önnur saga.
    Þetta var helsta málið sem hv. þm. hreyfði hér og því var vísað til félmn., að mig minnir. Svo vildi til að ég var formaður í þeirri þingnefnd á þessum tíma og ég tók náttúrlega fyrir öll þau mál sem nefndinni bárust og þarf ekki að hafa mörg orð um það, svo sjálfsagt sem það er. En ég hafði frumkvæði að því seint þann vetur sem þessi þáltill. lá fyrir nefndinni, að taka hana fyrir sérstaklega og fá hana afgreidda. Það kom ekki frá þingliði Sjálfstfl. eða fulltrúum hans að ýta á eftir þessu máli. Ég þóttist sjá, bæði af umsögnum og eðli máls, að þetta væri gott mál sem rétt væri að styðja, þá með þeim hætti sem gert var, með þeirri samþykkt Alþingis sem tíunduð er að tillögu félmn. þarna á þessu þingi og náði hér fram að ganga. Það var einmitt efni samþykktarinnar að fela fjmrh. að gera könnun á skattalegri meðferð lífeyrissparnaðar og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til að slíkur sparnaður njóti ekki lakari kjara en annar sparnaður í landinu. Síðan hefur Sjálfstfl. farið með fjármálin og farið með lífeyrismálin í fjmrn., en það hefur engu um þokað, þrátt fyrir þessa viljayfirlýsingu Alþingis. Á síðasta þingi þessa kjörtímabils, fjórum árum síðar, kemur einn þingmaður Sjálfstfl., ásamt tveim öðrum, og flytur í rauninni efnislega sams konar þáltill. og Alþingi tók afstöðu til vorið 1991. Þetta eru afar sérkennileg vinnubrögð, svo að vægt sé til orða tekið. Það er líka athyglisvert að þeir þingmenn Sjálfstfl. sem standa að þessum málatilbúnaði hafa ekki staðið mjög traustum fótum í þingliðinu sem flokkurinn sendir á þing úr kjördæminu Reykjavík, ekki mjög traustum fótum, annar varaþingmaður og mig minnir að hv. 1. flm. þessa máls sé 16. þm. Reykv. sem á e.t.v. undir högg að sækja að fá endurnýjað umboð til þess að bjóða sig fram til þings með líkur á að fá þar sæti.
    En ég vil taka undir þær ábendingar sem fram hafa komið um málið varðandi þessa tillögu auk þess sem fyrir liggur frv. sem varðar þetta mál, e.t.v. með annmörkum, þannig að það ætti að vera hægurinn hjá að láta reyna á stuðning þingmanna Sjálfstfl. bæði í þingnefnd sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar og síðan í afgreiðslu varðandi það og þau frumvörp sem snerta málið. Það er ánægjulegt að þetta skuli komið fram það snemma á þinginu að það sé a.m.k. ekki hægt að bera því við að það sé ónógur tími til þess að taka efnislega á þessu máli.