Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:05:56 (492)

[14:05]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er leitt hversu mikill vandræðagangur hefur verið í kringum þetta ágæta mál, þ.e. afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum og í rauninni alveg til skammar ef það gerist eina ferðina enn að ekki verði tekið á því hér í vetur.
    Svo sem fram hefur komið fyrr í þessari umræðu höfum við kvennalistakonur nú í þriðja sinn flutt frv. til laga sem tekur á þessu máli, þ.e. afnámi tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum eða lífeyrissjóðsgjöldum. Með samþykkt þess frv. yrði í rauninni tekið á þessu máli og það yrði tekið á því á því stigi, inngreiðslunum sem margir telja að sé heppilegra. Í greinargerð þess frv., sem verður að sjálfsögðu nánar rætt þegar mælt verður fyrir því koma fram röksemdir fyrir því sem ég tel að séu mjög ítarlegar og vel raktar. Hér erum við hins vegar að fjalla um þáltill. sem er því miður of opin til þess að hægt sé að treysta því að framkvæmd fylgi samþykkt hennar þó að vissulega sé það án efa ætlan flutningsmanna, og ég ef enga ástæðu til að efast um þeirra góða hug í þessu máli. Hins vegar er sérkennilegt eins og hér hefur verið bent á að þeir skuli ekki hafa náð þessu fram innan síns flokks þar sem hann fer nú með fjmrn.
    Framsóknarmenn boða að þeir muni flytja þriðja málið um þetta sama efni í vetur og taka þá inn einnig aðrar gerðir lífeyrissjóða. Ég ætla ekki að fara að hleypa hér af stað mikilli umræðu um það hvað séreignarsjóðir annars vegar og svo hins vegar samábyrgðarsjóðir af ýmsu tagi eru ólík fyrirbæri, annað er í rauninni bara bankabók og það getur hver og einn safnað í sína bankabók. Hitt er miklu flóknara dæmi og það er í rauninni þar sem fyrst og fremst þarf að taka á málum. Miðað við bankabækur þá eru þær einmitt enn, og það er kannski til vansa, hluti af því sem ekki hefur verið tekið á að skattleggja því að fjármagnstekjur eru svo sem kunnugt er enn ekki komnar á lista yfir þær eigur fólks sem skattlagðar eru og það er enn ein hneisan á ferli þessarar ríkisstjórnar vegna þess að þar hefur beinlínis verið blekkingaleikur í gangi.
    Ég óttast það að ef hér verða of mörg mál til umfjöllunar þá verði það til að drepa þessu máli á dreif og það væri mikill skaði ef svo yrði. Því vona ég að þrátt fyrir það að menn hafi einhverjar ólíkar áherslur í þessum málum þá verði tekið myndarlega á þessu máli. Fyrst ríkisstjórnin hefur ekki manndóm í sér til að gera það, þá verða aðrir bæði stuðningsmenn hennar og andstæðingar að taka á þessu máli og samanlagt virðist ekki skorta þingstyrk. Ef þetta mál sofnar eina ferðina enn hér í þingsölum, þá er ekki öðru um að kenna heldur en andstöðu nefndarformanna sem reka þá erindi ríkisstjórnarinnar. Ég get ekki skilið það öðruvísi. Ég treysti því að það verði tekið á þessu í vetur og sú tillaga sem hér er til umræðu er út af fyrir sig góðra gjalda verð, en ég mæli hins vegar með því að það verði farin traustari og öruggari leið. Við höfum fjölmörg dæmi um það hér að þingsályktunartillögur hafa ekki verið hátt skrifaðar en lagabreytingar er hins vegar erfiðara að hunsa þótt það séu því miður til nokkur dæmi um að það hafi verið gert.
    Að þessu sögðu verð ég að höfða til þeirra sem telja að hér sé um óréttlæti að ræða að sameina krafta sína í því að grípa til almennilegra aðgerða og ég vil spyrja 1. flm. þessarar tillögu sem hér er til umræðu hvort hann gæti ekki sætt sig við það að tekið yrði á málinu með lagabreytingum en ekki bara þáltill. ef samstaða næðist milli allra þeirra sem hafa þessa skoðun hér á Alþingi að fara þá leið.