Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:10:59 (493)

[14:10]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Þetta eru nú allsérstæðar umræður sem nú fara fram um skattamál. Ég bjóst við því að hv. þm. stjórnarandstöðuflokkanna mundu koma hér og lýsa afstöðu, annaðhvort persónulegri afstöðu eða afstöðu flokka sinna, til þess máls sem hér er til umræðu, en það hefur orðið bið á því. Þvert á móti hafa hv. þm. stjórnarandstöðunnar reynt að gera þennan tillöguflutning tortryggilegan á allan hátt án þess að láta í ljós hver þeirra eigin afstaða og eigin skoðun er til málsins. Það vill nefnilega svo til að allir stjórnmálaflokkar sem setið hafa í ríkisstjórn undanfarin ár bera ábyrgð á þeirri tvísköttun sem hér er til umræðu. Það er staðreynd. Allir stjórnmálaflokkar sem setið hafa í ríkisstjórn á undanförnum árum bera fulla ábyrgð. Það er engin ástæða til að gera það tortryggilegt þó að einstakir hv. þm., þó þeir tilheyri stjórnarliðinu, leggi fram till. til þál. til þess að leggja áherslu á þetta baráttumál sitt. Það verður að segjast eins og er að þetta mál hefur oft verið til umræðu í stjórnarliðinu en ekki orðið niðurstaða að ganga til verka um afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslunum, m.a. vegna þess að það hafa ekki verið aðstæður til þess í þjóðfélaginu. Við höfum verið að berjast við mjög erfiðar aðstæður og það hefur blasað við okkur kreppa og það hefur þurft á öllum tekjum ríkissjóðs að halda til þess að standa undir velferðarkerfinu og öðrum nauðsynlegum útgjöldum. Þetta er sú staðreynd sem við blasir. Þess vegna finnst mér það mjög einkennilegt að reyna að gera lítið úr þeim tillöguflutningi sem hér er til umræðu. Það liggur góður hugur að baki og það er kjarni málsins. Þess vegna vil ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, Sólveigu Pétursdóttur og Vilhjálmi Egilssyni fyrir þessa tillögu sem hér er fram lögð. Þau gera þó meira en margur annar. Þau halda málinu vakandi og vonandi kemur sá dagur að það skapist aðstæður til þess að standa að afnámi tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum vegna þess að auðvitað mundum við öll vilja það ef aðstæður

væru fyrir hendi.
    Virðulegi forseti. Hér hefur ekki verið upplýst enn í umræðunum hvað þessi tillaga mundi kosta ríkissjóð mikið. Það eru ýmsar tölur sem þar hafa verið nefndar. Við mig hefur verið nefnd talan 200 millj. og svo hafa komið fram hér tölur er nema allt að 2 milljörðum. Það fer allt eftir því hvernig á þetta mál er litið, en það er nauðsynlegt að það verði mjög gaumgæfilega skoðað í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og ég tel það þess virði að sá tillöguflutningur sem hér er til umræðu gefi tilefni til þess í hv. þingnefnd til að skoða þetta mál gaumgæfilega og kannski skapast aðstæður til þess að það megi stíga þetta skref.