Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:14:38 (494)

[14:14]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að flestir þeir þingmenn sem hér eru staddir hafi ekki velkst í vafa um það hvort ég styddi afnám tvísköttunar af lífeyri eður ei, en mér er það bæði ljúft og skylt að upplýsa hv. síðasta ræðumann um það að ég styð afnám tvísköttunar. Það gerum við kvennalistakonur og höfum flutt þess vegna frv. í þá átt. Varðandi kostnaðinn, þá vil ég fá að koma því að að það eru ýmsar leiðir færar til þess að bæta upp það tekjutap sem þarna yrði og þær leiðir ber að sjálfsögðu að nýta. Það ber að nýta það að skattleggja háar tekjur og það ber að nýta það að skattleggja fjármagnstekjur. Flóknara er það nú ekki.