Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:15:41 (495)

[14:15]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þessa yfirlýsingu sem var mjög skorinorð um það --- eða ég skil það svo --- að það yrði forgangsmál hjá Kvennalistanum að standa að afnámi tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum ef þær komast í þá aðstöðu að geta haft áhrif á það. Það virðist vera einfalt og auðvelt mál hjá Kvennalistanum að finna leiðir til þess að spara á móti eða auka aðra tekjuöflun ríkissjóðs er því nemur.
    Ef þær tölur eru réttar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á áðan að hér sé um kostnað að ræða er næmi 2 milljörðum kr. þá held ég að það þyrfti að hækka hátekjuskattinn ansi mikið til þess að ná slíkum tekjum og færa þá markið alllangt niður og þá erum við kannski farin að nálgast skattleysismörkin sjálf. Ég veit það ekki. En það væri fróðlegt að vita hvað hv. þm. treystir sér til að fara langt niður með hinn svokallaða hátekjuskatt. Einnig væri afar fróðlegt að fá að heyra það frá hv. þm. hvernig hún ætlar að leggja á fjármagnstekjuskatt án þess að sá skattur lendi á sparnaði gamla fólksins í landinu.