Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:21:35 (499)

[14:21]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að sú tillaga sem hér er verið að ræða er annars vegar sjálfsagt réttlætismál, hins vegar er hún líka stórfellt útgjaldamál. Ég veit ekki hvaðan þær tölur eru komnar sem menn hafa verið að fleygja sín á milli en í sjálfu sér er einfalt að giska á hvað þetta þýðir í tekjutap fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin líka. Ég geri ráð fyrir því að launasumman í landinu sé í kringum 200 milljarðar kr. Miðað við það að þjóðartekjurnar séu í kringum 350 milljarðar þá hugsa ég að það sé ekki fjarri lagi. Ef við gerum ráð fyrir því að svo sé þá má reikna með því að 10% af þeirri tölu séu þá í kringum 20 milljarðar kr. Spurningin er þá hversu mikið af því fer í skatt. Ég giska á, án þess að ég kunni það auðvitað, að það sé mikið sem fer í skatt af því að hér er yfirleitt um að ræða fólk sem vinnur mikið og er þar af leiðandi með talsverðar tekjur þannig að ég reikna með því að skatthlutfall af þessari launasummu sé nokkuð hátt. En segjum að það sé bara 10%, ekki meira en 10%, það hugsa ég að sé kannski í lægsta lagi en segjum að það sé ekki nema 10% nettó sem eftir standi eftir persónuafslátt, barnabætur, vaxtabætur og allt þetta, þá sé hérna um að ræða skattatilfærslu hjá ríkissjóði upp á um 2.000 millj. kr. Þá held ég að við séum ekkert mjög langt frá þeirri tölu sem hv. 12. þm. Reykv. nefndi áðan. Ég geri líka ráð fyrir því að einmitt þessi tala hafi orðið til þess að langflestir hafi hrokkið frá þessu máli og ekki fengist til að taka á því eins og eðlilegt hefði verið og óhjákvæmilegt.
    Það er náttúrlega dálítið alvarlegt umhugsunarefni fyrir Alþingi að það var samþykkt vorið 1991 ályktun Alþingis um þetta mál. Þar stendur:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að gera könnun á skattalegri meðferð lífeyrissparnaðar og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til að slíkur sparnaður njóti ekki lakari kjara en annar sparnaður í landinu.``
    Það er með öðrum orðum hlutverk fjmrh. að framkvæma þessa könnun og ég veit ekki til þess að hún hafi verið framkvæmd. Ég segi það alveg eins og er, hæstv. forseti, ég tel það eitt út af fyrir sig mjög alvarlegt mál ef hæstv. fjmrh. hefur látið undir höfuð leggjast að framkvæma þá könnun sem Alþingi fól honum fyrir þremur og hálfu ári síðan. Ekki síst vegna þess að það er auðvitað svo að einstakir forustumenn og talsmenn og frambjóðendur Sjálfstfl. fyrir síðustu kosningar lögðu á það áherslu að þessu yrði breytt. Þeir gáfu loforð um að þessu yrði breytt. En það er vandinn við Sjálfstfl. að ævinlega þegar hann er í stjórnarandstöðu þá er hann tilbúinn til að lofa öllum öllu hvað sem það kostar, mikið eða lítið, en þegar kemur að því að efna hlutina þá skiptir það hann engu máli. Veruleikinn sem blasir við er auðvitað sá að það hefur sennilega ekkert verið gert í þessu máli, ekki nokkur skapaður hlutur, nema þá að hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni hefur verið leyft að flytja af og til þessa þáltill. Og satt best að segja minnir það dálítið á kattarþvott, með leyfi forseta, að ætla sér að komast með svona ódýrum hætti fram hjá jafnstóru máli og hér um ræðir.
    Hins vegar held ég, hæstv. forseti, að það eigi ekki að skjóta sér undan því að taka á þessu máli með því að segja: Þetta er svo dýrt. Og það á heldur ekki að skjóta sér fram hjá því að taka á þessu máli með því að segja eins og hv. 5. þm. Austurl.: Það þarf að fara svo langt niður með hátekjuskattinn til þess að standa undir þessu. Það á ekki að gera það. Það finnst mér líka vera útúrsnúningur í raun og veru. Staðreyndin er sú að þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp var það með þeim hætti að menn töldu að þá ætti að afnema alla frádrætti hvaða nafni sem þeir nefndust. Menn voru orðnir þreyttir á frádráttafrumskóginum eins og það var kallað. Þess vegna töldu menn að það ætti að afnema alla þessa frádrætti að því er varðaði tekjuskatta einstaklinga. Hvað varðar tekjuskatta fyrirtækja þá er hins vegar um að ræða stórkostlegt frádráttamagn af ýmsu tagi þannig að í raun og veru er sú skattlagning eins og gatasigti. Að því er

varðar einstaklingana er þetta tiltölulega lokað.
    Ég hygg að menn hafi þá reynslu núna af staðgreiðslukerfinu í tekjuskatti, eins og að sumu leyti í virðisaukaskatti, að þetta gangi ekki. Það verði að veita undanþágu. Þessi reglustikupólitík, sem fylgt hefur verið varðandi staðgreiðsluna í fyrsta lagi og t.d. virðisaukaskattinn til skamms tíma í öðru lagi, þessi reglustikupólitík er óframkvæmanleg.
    Á síðasta vetri tóku hv. alþm. loksins við sér og féllust á gamla tillögu Alþb. um það að lækka skatt á matvælum. Það kostaði alveg óskapleg umbrot hér í salnum, innantökur og kvalir hjá fjölda manns vegna þess að það væri verið að breyta og flækja skattkerfið rétt eins og skyldur okkar væru við skattkerfið, skattkerfið væri í raun og veru orðið kjósandi eða lögpersóna með tilfinningar sem við áttum alveg sérstaklega að passa upp á, en ekki þá sem kjósa okkur og eiga að ráða úrslitum hér varðandi málafylgju okkar.
    Ég tel þess vegna að það að rífa niður skatt á matvælum hafi verið stórkostleg framför. Ég tel líka að menn eigi að hafna reglustikupólitíkinni að því er þessa hluti varðar og fara í það af fullri alvöru að afnema þessa tvísköttun --- af því að þetta er tvísköttun og ekkert annað. Menn eiga að afnema þessa tvísköttun og taka sig saman í andlitinu til þess að það verði gert. Reyndar er ég þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að það séu fleiri hlutir sem þurfi að endurskoða í staðgreiðslukerfinu, tekjuskattskerfinu, vegna þess að það er ranglátt eins og það er. Það eru ranglátir hlutir í þessu kerfi eins og það er og það eru þess vegna fleiri hlutir sem þarf þá að skoða.
    Þess vegna tel ég að að öllu saman lögðu eigi menn að knýja á um það að menn gefi skýrar yfirlýsingar varðandi það fyrir þær kosningar sem í hönd fara: Hvað ætla menn að gera? Og helst þurfa menn að ganga frá þessum málum fyrir þær kosningar þannig að kjósendur þurfi ekki að eiga nein eftirkaup í þessum efnum því reynslan er sú að eftirkaupin eru slæm, þau skila litlum árangri, a.m.k. fyrir kjósendur Sjálfstfl.