Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:29:27 (500)

[14:29]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Kannski aðallega vegna framgöngu hv. þm. Alþb. hér. Ég skil ekki alveg árásir þeirra á hv. þm. Guðmund Hallvarðsson fyrir að fylgja þessu máli eftir. Hér er þingmaðurinn að flytja þetta mál í þriðja sinn. Í hin fyrri tvö skiptin urðu engar umræður. Þá sáu hv. þm. Alþb. enga ástæðu til að blanda sér í umræðuna. Nú, af því að þetta er síðasta þing kjörtímabilsins þá koma hv. þm. og gera málið tortryggilegt fyrir það eitt að þetta er síðasta þing kjörtímabilsins. Þetta finnst mér ekki heiðarlegur málflutningur. Menn geta haft ýmsar skoðanir á málinu og hvernig það er fram sett en að koma hér núna á lokaþinginu með þennan málflutning, hafandi setið undir þessu máli tvö önnur þing, það finnst mér ekki heiðarlegur málflutningur og tel að menn ættu frekar að huga að einhverju öðru þarfara heldur en að eyða tíma þingsins í svona skak.
    Eins og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði er auðvitað góður hugur hér að baki og hv. 16. þm. Reykv. er bara að fylgja sínu máli eftir og það tekur, eins og menn vita, oft mörg þing jafnvel að koma góðum málum í gegn. Það er auðvitað fáránlegt þegar menn skynja að það er þingmeirihluti fyrir málum, og þetta er ekkert einstakt dæmi í þeim efnum, að þá komast mál engu að síður ekki í gegnum þingið. Við þekkjum mörg dæmi um það þar sem kannski stór meiri hluti þingsins styður tiltekið mál, við getum nefnt t.d. þyrlumálið, en það tekur áraraðir að koma því í gegn. Þetta er auðvitað íhugunarefni.
    Ég get viðurkennt það að ég hefði hugsanlega staðið öðruvísi að þessu en ég tek undir málflutning þingmannsins hvað varðar tvísköttunina og óréttlætið sem felst í henni. Persónulega hefði ég valið þá leið að koma með fyrirspurn varðandi þá ályktun sem var samþykkt hér 1991 og fylgja svo málinu eftir í framhaldi af því svari og þá hugsanlega með frv. eins og menn hafa bent á. Það hefði ég talið rétta leið. Hv. þm. velur þessa leið og það er hans mál hvernig hann vinnur að því. Ég vildi nú aðallega koma upp til að geta um þetta.
    Mér finnst líka hálfbillegt að hlusta á málflutning Kvennalistans og þær lausnir sem sá flokkur boðar þegar hann talar um fjármagnstekjuskatt og hátekjuskattinn. Og mér finnst hálfbillegt að slá fram svona frösum eins og fjármagnstekjuskattur og koma ekki með nokkra einustu útlistun á því. Ég held að það hljóti að vera krafa okkar til Kvennalistans sem er að boða að þetta sé hægt með þessum hætti að gera þá nánari grein fyrir því hvernig hann hugsar sér að útfæra fjármagnstekjuskatt. Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að vernda gamla fólkið. Það er miklu fleira fólk sem er að leggja til hliðar, sem er að spara í bönkunum og á litlar fjárhæðir t.d. Það er ekki bara gamla fólkið, það er unga fólkið, það er sjúka fólkið. Það eru bara þeir sem minna mega sín yfirleitt sem eru að reyna að aura saman einhverju inn á bankabók. Það dugar ekkert að koma með svona málflutning, einfaldan frasa og segja: Þarna er lausnin og hún er gersamlega óútfærð. Þetta er ekki málflutningur sem gengur. Þetta er ekki lausn á málinu. Ég óska þess vegna eftir því að hv. þm. Kvennalistans geri örlítið betur en þetta.