Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:35:40 (502)

[14:35]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson á heiður skilinn fyrir það að hafa beitt sér fyrir framgöngu þessa máls á sínum tíma. Ég get í sjálfu sér tekið undir flest það sem hv. þm. sagði rétt áðan og tel mig raunar hafa gert það í minni stuttu ræðu. Ég hafði áhyggjur af því hvaða meðferð og meðhöndlun þingsályktanir yfirleitt fá. Menn vita það að í stórum hluta tilfella þýðir samþykkt á þingsályktunartillögu yfirleitt nánast dauða á málinu. Það er auðvitað áhyggjuefni fyrir þingið hvernig haldið er á ályktunum þingsins og vilja þingsins yfirleitt. Ég minnti t.d. á þyrlumálið þar sem vilji þingsins var skýr og ítrekaður og það gekk samt jafnbölvanlega og það gekk að fá það mál í gegn og tók sinn tíma.
    Ég kom líka inn á það að ég hefði hugsanlega farið aðra leið og mér fannst þingmaðurinn taka undir þá leið sem ég benti á. Auðvitað hefði átt að fylgja þessu máli eftir með fyrirspurn og síðan í ljósi þess svars sem við þeirri fyrispurn hefði komið hefði mátt fylgja málinu eftir á annan hátt. Ég held að þegar andsvar þingmannsins er gert upp þá séum við merkilega sammála.