Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:37:05 (503)

[14:37]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem þetta mál hefur fengið. Ég vil byrja á því þar sem menn voru nærri enda málsins og á málflutningi þeirra kvennalistakvenna að það væri eðlilegt að koma lífeyrissjóðum í bankabók. ( AÓB: Nei, það er misskilningur.) Ég held að þær geri sér enga grein fyrir því að lífeyrissjóðirnir eru þannig uppbyggðir að örorka er orðin einn af stærstu hlutum útborgunar í lífeyrissjóðnum þannig að slík meðferð málsins er náttúrlega bara út í hött.
    Það var annað athyglisvert sem formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, flutti mál um áðan. Hann var fjmrh. þegar þessi þáltill. var samþykkt á 113. þingi og menn eru að deila á fjmrh., að hann skyldi ekki hafa lagt upp með þessa þáltill. þegar hún var samþykkt á 113. þingi. Ég held að það megi kannski deila um það og eins og hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugur Stefánsson, kom réttilega inn á eiga allir þeir sem hafa setið í ríkisstjórn undanfarin ár hlut að máli. Það er mergur málsins. En að formaður Alþb. skuli vera með dylgjur um að þetta mál sé hér flutt vegna þess að það sé prófkjör meðal sjálfstæðismanna hér í Reykjavík er út í hött og ég vísa því alfarið til heimahúsanna. Ég held að maðurinn hafi eitthvað ruglast á ferðalaginu í þessari fínu amerísku drossíu Alþb. sem hann hefur ferðast um Vestfirðina nú nýlega. Vegna þess að málið er það, og um það held ég að allir þingmenn séu í hjarta sínu sammála, að það er réttlætismál að afnema tvísköttunina.
    Það er annað líka sem menn komu inn á og ég held að sé mjög athyglisvert fyrir þá sem fylgjast með störfum þingsins, og kannski á þessari stundu horfandi á beina útsendingu sjónvarps, að heyra og sjá að hver þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið upp og sagt: Þáltill. er bara sýndarmennska á hinu háa Alþingi og skiptir ekki nokkru máli. Það er athyglisvert. Og margir sem hér hafa talað hafa setið á Alþingi í fleiri ár. Það hefði kannski verið gott fyrir almenning að fá að heyra það fyrr og fá frekari útskýringar á því hjá þingmönnum Alþb. Eru þeir þá með þeim þáltill., sem eru ekki svo fáar fluttar á hverju þingi, að draga alþjóð á asnaeyrunum? Er þetta þá hrein sýndarmennska og skrípaleikur eins og þeir hafa sagt sjálfir?
    Nei, virðulegi forseti. Sú þáltill. sem ég flyt er af einurð og af þeirri ætlan að nefndarmenn, væntanlega í efh.- og viðskn. þar sem allir flokkar eiga fulltrúa, muni afgreiða þessa tillögu til þingsins. Ég lít ekki á þetta sem neina sýndarmennsku. En ef mér eldri og reyndari þingmenn á Alþingi gera það þá hafa ýmsir verið blekktir og meðal þeirra þeir þingmenn sem ekki hafa setið hér nema tæpt kjörtímabil.

    Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að þáltill. verði vísað til efh.- og viðskn. og það hlýtur að vera ætlan og sá skilningur að þáltill. þurfi ekki langa málsmeðferð í efh.- og viðskn. Hún hlýtur að liggja nokkuð ljós fyrir og þar verður væntanlega gengið út frá því um hvaða fjárhæðir við erum að tala vegna hugsanlegs tekjutaps ríkissjóðs ef tekjutap skyldi kalla.
    Að lokum þetta. Hv. 9. þm. Reykv. Svavar Gestsson leiddi þá alþýðubandalagsmenn aftur inn á skynsamlega braut umræðna um þetta mál. Hann ræddi mjög um að það væru ýmsar tölulegar hliðar í málinu sem þyrfti að skoða og fleira sem hefði kannski afbakast þegar staðgreiðsla skatta var sett á og ég get heils hugar tekið undir það með honum.