Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:41:55 (504)

[14:41]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi ræðu hv. 16. þm. Reykv. þá þykir mér illt að hann svaraði ekki spurningu minni og sneri út úr orðum mínum. Tvennt vil ég að komi skýrt fram. Það var vegna orða hv. þm. Finns Ingólfssonar sem ég tók það fram að ég teldi enga sérstaka hættu á því þótt sérstaklega væri tekið á þeim lífeyrissjóðum sem eru samtryggingarsjóðir og samábyrgðarsjóðir en ekki á bankabókasjóðunum vegna þess að ég er sammála hv. þm. um að það eru fyrst og fremst þeir sjóðir sem okkur ber að gæta og það eru þeir sjóðir sem ég vil að sem flestir landsmanna eigi aðild að. Þar getum við verið sammála. Ég vil leiðrétta það hafi hv. þm. talið að ég væri sérstakur talsmaður þess að menn gættu sinna lífeyrisréttinda með því að safna inn á bankabækur. Slíkt tel ég bara að sé þeirra eigin ábyrgð og það verður hver og einn að fara með það eins og hann vill.
    En ég vil gjarnan fá að vita það hvort hv. þm. treystir sér til að svara því, sem var mín meginspurning, hvort hann sé tilbúinn til þess að sameinast öðrum sem vilja afnema tvísköttun á lífeyrisgreiðslur með þeim hætti t.d., ef sú lending yrði ofan á, sem ég tel farsælasta, að það yrði tryggt með lagabreytingum og þá stæði hann að slíku.
    Við getum verið sammála um það að í sumum tilvikum má leysa mál með þáltill. Þau eru opin og víð og þau þarf að vinna lengra. En í þessu tilviki er alveg hægt að fara þá leið að styðja lagabreytingar og hún er sú sem ætti að öðru jöfnu að vera öruggust.