Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:51:25 (509)

[14:51]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ljóst af þessari umræðu að það er mjög víðtækur stuðningur við það á Alþingi að afnema tvísköttun af lífeyrisgreiðslum. Það sem vantar inn í þessa mynd er hvað kostar að gera þetta. Hér hafa verið nefndar tvær tölur. Það hefur verið nefnd talan 2.000 millj. og það haft eftir hæstv. fjmrh. að fjmrn. meti það að þetta kosti 200 millj. kr. Ég hef upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun um að þetta kosti 2 milljarða kr. Ég tek þess vegna undir það sem fram kemur hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni að það hefði verið mjög æskilegt að hafa fjmrh. viðstaddan þessa umræðu. Einnig í því ljósi að hér er um að ræða síðasta þing þessarar hæstv. ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili og upplýst er hér að þetta sé ályktun Landsfundar Sjálfstfl. og þrír þingmenn Sjálfstfl. flytja þetta mál. Það er því alveg nauðsynlegt að fá fram hvort það sé stuðningur í stjórnarliðinu við þáltill. og hún þá flutt af hálfu ríkisstjórnarinnar í frumvarpsbúningi. Það er ein leið til í því til viðbótar að láta reyna á þetta mál, þ.e. að flytja brtt. við skattalagafrv. sem ríkisstjórnin á eftir að flytja á Alþingi. Ég tel alveg ótvírætt að á þetta mál þurfi að reyna.
    En það skiptir öllu máli um hvað háar fjárhæðir við erum að tala og hvort við getum sameinast um hvernig eigi að fjármagna þessar greiðslur.
    Í lokin spyr ég um það hvort þingmaðurinn hafi ekki kannað það áður en hann flutti þáltill. hvað þetta kostaði og hvað hann viti um þá könnun sem var samþykkt á Alþingi 1991 að ætti að fara fram varðandi skattalega meðferð lífeyrissparnaðar. Hvort hann hafi ekki kynnt sér hvort slík könnun hafi farið fram og ef svo er hvort ekki væri hægt að fá henni dreift á hv. Alþingi. Það held ég að sé mjög mikilvægt.
    Ég ítreka að breiður er stuðningur við þetta mál á Alþingi og við þurfum að sameinast um leið sem skilar því að við loksins mönnum okkur upp í að gera það að lögum að afnema tvísköttun af lífeyrisgreiðslum.