Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 14:55:32 (512)

[14:55]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þarf afar stuttan tíma og skal því ekki tefja utandagskrárumræðu. Ég vil aðeins lýsa skoðun minni á þessu máli þar sem mér hafa komið dálítið á óvart þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég held að það geti enginn verið ósammála því að það sé óréttlæti að menn greiði skatt af því sem þeir borga í lífeyrissjóð alla starfsævi sína, fari síðan að taka eftirlaun og verði þá að borga skatt af þeim líka. Ég held að í ótal umræðum hér í mörg ár hafi það komið berlega í ljós að auðvitað finnst öllum þetta óréttlátt. Ég vil því aðeins þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir að vekja enn og aftur athygli á þessu máli.
    Hann hefði hins vegar að ósekju getað stytt okkur þá leið að spyrja eftir framkvæmd þeirrar þáltill. sem hv. þáv. þm. Guðmundur H. Garðarsson fékk samþykkta hér á hinu háa Alþingi. Að vísu var sú tillaga efnislega um aðeins annað. Ég tel því ekki að hv. 16. þm. Reykv. sé að endurtaka þann tillögutexta þó að efnið sé auðvitað skylt.
    Það er ekki nema ein ástæða fyrir því að þetta hefur ekki komist í framkvæmd og hún er sú að það kostar peninga. Og þarna er náð tvöföldum skatti af vinnandi fólki í landinu. Það hefur verið háttur allra ríkisstjórna að vera afar tregar til að gefa eftir nokkra skattheimtu sem þeir hafa einu sinni komist í. Hitt er annað mál að við þessu verður eitthvað að gera og það verður að finna þessa tekjustofna annars staðar því það er ekkert annað en óréttlæti, hæstv. forseti, að níðast á því fólki sem loksins á að njóta þess sem það hefur lagt fyrir í lífeyrissjóð og verður þá enn og aftur að greiða af því skatta.
    Ég vil aðeins ítreka þakkir mínar til hv. 16. þm. Reykv. og lýsa yfir að ég mun að sjálfsögu styðja þessa tillögu.