Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:02:19 (516)

[15:02]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þegar Illugi Jökulsson var látinn hætta sem pistlahöfundur Rásar 2 fyrir nokkrum dögum skall reiðialda á Ríkisútvarpinu að ekki sé meira sagt og kom þar margt til. Í fyrsta lagi það að Illugi Jökulsson er með eindæmum vinsæll, orðheppinn og óvæginn fjölmiðlamaður. Í öðru lagi vegna þess að Sjálfstfl. og framkvæmdastjóri hans, Kjartan Gunnarsson, hafði sérstaklega mótmælt pistli Illuga frá sl. vori. Er þetta lá fyrir taldi ég að það væri óhjákvæmilegt að fara fram á umræðu utan dagskrár um vanda Ríkisútvarpsins á kosningavetri, ekki síst vegna þess að fyrr á þessu kjörtímabili hefur Sjálfstfl. aftur og aftur lagt Ríkisútvarpið í einelti. Ég tel að einmitt í utandagskrárumræðum gefist þingmönnum kostur á að tjá sig um þau grundvallaratriði sem Ríkisútvarpið hlýtur að taka tillit til í starfsemi sinni og þess vegna tel ég að utandagskrárumræða sé í rauninni einkar heppilegur vettvangur í þessu efni.
    Nú er það svo sýnist mér á öllu að yfirmenn Ríkisútvarpsins virðast telja að stofnunin sjálf og þeir líka séu í hers höndum eftir það sem á undan er gengið. Þess vegna verða viðbrögð þeirra hikandi, óviss og fálmkennd. Þannig vakti það athygli að sömu dagana og Illugi fékk pokann sinn og Hannes Hólmsteinn var látinn hætta að fluttur var í útvarpið á Rás 1 pistill sem var óvenjuharðsnúinn eftir þátttakanda í prófkjöri Sjálfstfl. á Vestfjörðum og nokkru áður hafði einn af þátttakendum í prófkjöri Sjálfstfl. í Reykjavík flutt þátt í sjónvarpið um Hitaveitu Reykjavíkur. Það var sem sagt ljóst strax við þessa umræðu að engar samræmdar heildarreglur gilda, yfirstjórn á stofnuninni er ekki nægilega skýr. Starfsmenn stofnunarinnar mótmæltu þeim vinnubrögðum sem þarna lágu fyrir og hvöttu til þess að um yrði að ræða samstöðu og samræmingu í ákvörðunum yfirmanna. Ég tel að um tvær leiðir sé að ræða við yfirstjórn stofnunar eins og Ríkisútvarpsins. Í fyrsta lagi hina gömlu aðferð sem notuð var hér áður meðan Ríkisútvarpið var eitt um hituna og engin samkeppni var til. Þá voru teknar um það ákvarðanir að höggva á alla pólitíska umræðu í stofnuninni sem endaði með því að hún varð í stuttu máli leiðinleg og dugði þess vegna ekki sem vettvangur þjóðarinnar eða sá vettvangur sem þjóðin kaus. Hins vegar er það svo og það liggur ljósara og ljósara fyrir í seinni tíð að alvörufjölmiðill þarf á því að halda að sýna alla breidd skoðanaflórunnar í sjálfum sér. Honum dugir ekki að vísa til þess að einstakir fjölmiðlamenn geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við annan miðil. Alvörufjölmiðill verður að vera opinn fyrir öllum helstu áherslum þjóðmálaumræðunnar á hverjum tíma. Þess vegna var gömlu leiðinni hafnað og hin leiðin er skynsamlegri. Það er leið nútímans og fjölbreytninnar þar sem alls konar pistlahöfundar eru ráðnir til starfa um lengri eða skemmri tíma. Þessi leið er reyndar sú eina færa um þessar mundir m.a. vegna samkeppninnar. Ég tel því að það eigi einmitt á kosningavetri að halda þannig á málum að pólitísk sjónarmið fái að koma fram, bæði frá þeim sem styðja tiltekin sjónarmið og frá þeim sem gagnrýna tiltekin sjónarmið.
    Reiðialda skall yfir Ríkisútvarpið þegar Illugi hætti. Það komu ályktanir m.a. frá leikskólakennurum, frá blaðamönnum, frá rithöfundum. Og það var ekki bara vegna þess að hér væri um að ræða vinsælan útvarpsmann. Það var líka vegna þess að undir niðri óttaðist fólk að Ríkisútvarpið gæti farið halloka því það yrði á ný hneppt í fjötra skoðanaleysis því það yrði flóttaleiðin sem stjórnendur þess kysu til að komast undan stöðugu einelti Sjálfstfl. Slíkt væri vissulega hörmulegt, hæstv. forseti. Nú á og þarf Ríkisútvarpið að verða meira lifandi og opnara en nokkru sinni fyrr. Það þarf að skapa leiðir fyrir fjölbreyttar skoðanir og alls konar skoðanaskipti. Það þarf að verða þjóðarútvarp. Þannig rækir það skyldu sína. Það var því rangt að mínu mati sem hlustanda útvarpsins að víkja pistlahöfundunum frá á þeim forsendum að þeir hefðu farið yfir einhver strik. Það má líka spyrja sig þeirrar spurningar: Eiga starfsmenn stofnunarinnar að vera skoðanalausir hlutleysingjar svo lengi sem þeir rækja störf sín að öðru leyti? Auðvitað ekki. Það væri líka fáránlegt að hneppa starfsmennina í fjötra skoðanaleysis. Hitt er annað, hæstv. forseti, að þær reglur sem farið er eftir verða að vera skýrar og afdráttarlausar, einfaldar þannig að allir starfsmenn stofnunarinnar og pistlahöfundar viti um hvað þessar reglur fjalla og að þeir séu sáttir við þessar reglur í meginatriðum. Einmitt á kosningavetri þurfa þær að vera skýrar og einfaldar og sanngjarnar. Þær mega ekki verða á kostnað skoðanafrelsisins. Einkunnarorðin við þessar aðstæður eiga að vera að mínu mati frjálst útvarp, opið útvarp, fullvalda útvarp. Þannig á Ríkisútvarpið að vera.
    Ég beini orðum mínum í dag ekki til hæstv. menntmrh. til þess að biðja hann um að gera eitt eða neitt við Ríkisútvarpið. Mér þætti vænt um að hann héldi sig sem lengst frá því. Ég hygg að það væri Ríkisútvarpinu fyrir bestu. Hins vegar spyr ég: Er hann sammála þeim almennu sjónarmiðum sem ég hef sett fram hér í dag?