Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 15:58:50 (529)

[15:58]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að með lagaákvæðum um Ríkisútvarpið eru skilgreind almenn mörk óhlutdrægni sem nær til dagskrárgerðar og fréttaflutnings. Hvar þau mörk liggja nákvæmlega er huglægt mat. Það er lögum samkvæmt hlutverk yfirmanna stofnunarinnar að meta hvenær farið er nærri þessum mörkum ellegar yfir þau. Hér verður ekki tekin nein afstaða til þess hvort rétt hafi verið eða rangt að afþakka þjónustu ákveðinna dagskrárgerðarmanna Ríkisútvarpsins en það er hins vegar nauðsynlegt að meta það hvort þar hafi verið gengið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um tjáningar- og skoðanafrelsi eins og hér hefur verið haldið fram, ellegar brotið gegn ákvæðum útvarpslaga um að Ríkisútvarpið skuli vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni. Ef dagskrárgerðarmenn gerast ákveðnir talsmenn ákveðinna flokka, að ekki sé talað um það ef þeir fyrir kosningar hvetja hlustendur til að kjósa einn lista öðrum fremur, er það hlutverk yfirmanna þessarar dagskrárgerðarmanna að meta það hvort slík dagskrárgerð samrýmist skyldum Ríkisútvarpsins um óhlutdrægni í dagskrárgerð.
    Stjórnmálaflokkar gerast stundum fyrirferðarmiklir í auglýsingaherferðum sínum fyrir kosningar. Yfirleitt hafa ljósvakamiðlar freistað þess að aðskilja hreinan kosningaáróður stjórnmálaflokka frá dagskrárgerðinni, jafnvel þótt þeir hafi opnað auglýsingatíma sína fyrir stjórnmálalegar auglýsingar, enda eru þær lögum samkvæmt aðgreindar frá dagskrárefni. Verður að telja það mjög skynsamlega ráðstöfun og satt að segja ekki útséð um það hver yrðu örlög Ríkisútvarpsins ef þess væri ekki gætt að aðgreina flokkspólitískan áróður og dagskrárgerð. Hvorki ákvæði stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi, né ákvæði útvarpslaga, veita stjórnmálasamtökum eða sjálfskipuðum fulltrúum þeirra rétt til að búa um sig í dagskrárgerð og þiggja laun fyrir kosningaáróður sinn. Ég held því að það megi segja, virðulegi forseti, að hér er flutt mál sem ekki á heima í þinginu og er sá vandræðagangur með eindæmum.