Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:01:18 (530)

[16:01]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þátttöku í þessari umræðu, en það hefur komið í ljós að hún var þörf og brýn miðað við stöðu mála alla.
    Ég tel að það hafi komið hér fram ýmsar almennar niðurstöður sem ástæða er til að skoða fyrir utan ritskoðunartóninn og skætinginn sem kemur fram í einstaka þingmönnum Sjálfstfl. og ég ætla að láta sem vind um eyru þjóta í þessari lokaræðu minni.
    Þá ætla ég benda á að í fyrsta lagi hefur það greinilega komið fram að hv. þm. telja yfirleitt að það sé nauðsynlegt og skynsamlegt að settar séu sanngjarnar, almennar og gagnsæjar reglur á grundvelli málfrelsis og tjáningarfrelsis almennt fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins, þannig að þeir megi sem best starfa eftir þeim í samræmi við lögin og í sátt við hlustendur. Í öðru lagi tel ég mjög mikilvægt að það kom hér fram hjá hv. 2. þm. Vestf., að það sé æskilegt að það verði farið yfir starfsmannastefnu Ríkisútvarpsins sérstaklega, m.a. með hliðsjón af þeim ábendingum sem fram koma í ályktun Blaðamannafélags Íslands.
    Í þriðja lagi held ég að það sé alveg ljóst að sú aðgerð að láta pistlahöfunda hætta með þeim hætti sem gerðist nýtur ekki neins almenns stuðnings hér í þessari stofnun. Miklu frekar er það svo að þær ræður sem hér hafa verið fluttar má hvað sem öllu öðru líður, almennt séð að mínu mati, túlka sem ákall til yfirstjórnenda stofnunarinnar um að þeir endurskoði stöðu þessara mála, m.a. ráðningu og/eða uppsagnir þessara pistlahöfunda sem hér um ræðir. Ég vil líka láta það koma fram að ég held að það hljóti að vera mikilvægt að þessi umræða hefur þróast þannig að sá áburður um lögbrot, sem birst hefur og heyrst hefur, á hendur a.m.k. öðrum þessara pistlahöfunda, á engan hljómgrunn, engan stuðning. Þannig að í raun og veru er þeim áburði vísað mjög ákveðið á bug í þessari virðulegu stofnun, sem þó setur lögin í landinu og það tel ég að sé mikilvægt.
    Ég ætla ekki að fara hér yfir þann tón sem fram kom hjá hv. þm. Hjálmari Jónssyni. Það var ótrúlega lítið um útúrsnúninga í þessum umræðum, miðað við það sem maður er vanur frá Sjálfstfl., t.d. útúrsnúning eins og þann að einu pólitísku afskiptin af þessum málum væru umræðurnar hér á Alþingi. Ég vil hins vegar mótmæla sérstaklega þeim orðum hæstv. menntmrh., að mönnum sé tæpast frjálst að túlka skoðanir annarra í Ríkisútvarpinu. Ég segi alveg eins og er, hæstv. forseti, ég tel það stórhættulegt fyrir þessa stofnun þjóðarinnar ef slík orð standa án þess að þeim sé mótmælt og þeim er hér með alvarlega mótmælt og það hefur reyndar komið fram áður í þessum umræðum.
    Ég tel einnig að ræða hv. 5. þm. Norðurl. v., tónninn um árás, þar sem menn garga, ausa upp úr vilpum, hver úr sínum koppi. Ég segi alveg eins og er, að þó menn séu snjallir orðsins menn þarna fyrir norðan og hafi verið það marga ættliði, mann fram af manni, þá tel ég satt að segja að þetta sé ekki smekklegur málflutningur. Ég tek undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að það er dapurlegt til þess að vita ef málflutningur af þessu tagi þykir góð og gild vara í útvarpsráði.
    Áður var það þannig að skáldin voru málsvarar málfrelsis og tjáningarfrelsis. Yfirstéttin reyndi allt sem hún gat, oft á tíðum, til að berja þessa menn til hlýðni. Við þekkjum úr sögunni dæmi um mörg skáld sem risu upp gegn þessum kúgunaröflum. Eitt af þeim skáldum var kallað Bólu-Hjálmar.