Málefni Ríkisútvarpsins

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:05:59 (531)

[16:05]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið sagt hér, ég held að það hafi verið hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, að umræddir pistlahöfundar hafi verið reknir vegna skoðana sinna. Ég held að það sé ekki rétt. Þeir hafa ekki verið reknir vegna skoðana sinna. Ég greindi frá bæði lagaákvæðum og reglum Ríkisútvarpsins og því að yfirmenn Ríkisútvarpsins teldu að umræddir pistlahöfundar hefðu brotið gegn þessum reglum. Ég tel ekkert óeðlilegt við það að við ræðum hér málefni Ríkisútvarpsins, en ég tel ekki eðlilegt að við séum að ræða hér ákvarðanir yfirmanna Ríkisútvarpsins um einstaka starfsmenn og hvort þeim er vikið úr starfi.
    Ég tók sérstaklega eftir í málflutningi hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, þar sem hún sagði: Það verður að taka til baka þessar fáránlegu uppsagnir. Samkvæmt þessu þá henta núna afskipti ráðherra menntamála. Nú á ráðherra menntamála að taka fram fyrir hendurnar á yfirmönnum Ríkisútvarpsins og skipa þeim fyrir verkum, hverja þeir eiga að hafa í starfi og þá væntanlega hverja ekki. Hv. þm. skoraði á mig að grípa inn í og ef ég ekki gerði það, þá yrði að taka til annarra ráða. Mér þykir þetta býsna merkilegur málflutningur.

    Ég sagði í ræðu minni áðan að Ríkisútvarpið ætti að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni og ég stend við það. Það eru því útúrsnúningar ef annað er lagt út af mínum orðum.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson spurði hvort útvarpsstjóra hefði verið hótað. Honum var ekki hótað, alla vega ekki af mér. En þetta er hinn venjulegi málflutningur. Það er látið að einhverju svonalöguðu liggja og síðan á ég væntanlega að sanna að ég hafi engu hótað. Hins vegar heyrðist mér á ræðu hv. þm. að hann vildi gjarnan losna við útvarpsstjórann, ekki var hann alla vega ánægður með hans athafnir. Ég skil hins vegar ágætlega, eftir að hafa heyrt ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar, að honum líkar vel við þá sem kveða fast að orði.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að það færi í taugarnar á sjálfstæðismönnum að geta ekki ráðskast með stofnunina Ríkisútvarpið. Þetta er allt fullt af þversögnum hjá hv. ræðumönnum hér í dag. Hv. þm. Svavar Gestsson segir hins vegar að Sjálfstfl. sé alltaf að ráðskast með Ríkisútvarpið. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segist vonast til að Ríkisútvarpið fái að vera í friði. ( VS: Fyrir Sjálfstfl.) Fyrir Sjálfstfl, já. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir krefst þess hins vegar að menntmrh., Sjálfstfl. væntanlega, grípi nú inn í og taki til baka þessar fáránlegu uppsagnir, eins og þingmaðurinn sagði. Ég er bara að draga hér fram þennan málflutning hv. stjórnarandstæðinga. Það rekur sig hvað á annars horn þar eins og gjarnan áður.
    Ég sagði hér að mönnum væri tæpast frjálst að túlka að eigin vild skoðanir annarra. Hv. þm. Svavari Gestssyni þótti hlýða að hafa þetta ekki rétt eftir mér. ( SvG: Að eigin vild.) Já, ég sagði að eigin vild. Ég sagði það. ( SvG: Vilt þú ráða . . .  ) Nei, ég var að greina hér frá hverjar væru reglur Ríkisútvarpsins, sem ætlast er til að starfsmenn þess fari eftir. Þegar það hentar Alþb. þá þarf ekki að fara eftir neinum reglum.
    Ég sé á þessari umræðu að það er full þörf á frekari umræðu og vitrænni en þeirri sem hér hefur farið fram, um málefni Ríkisútvarpsins. Það gefst færi á því þegar við ræðum um frv. til breytinga á útvarpslögum, sem vonandi verður hér fljótlega.