Sjómannalög

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:23:32 (534)

[16:23]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, kom inn á ýmsa hluti sem þarfnast eðlilega skýringar við. Í fyrsta lagi talar hún um að hún hafi haldið að slíkir samningar væru úreltir og vitnar þá til þessa lagafrv. sem er náttúrlega ekki samningur. Í annan stað talar hún um að ekkert sé getið um erlenda sjómenn. Nú er það svo að ekki er langt síðan ég lagði fyrirspurn fyrir samgrh. varðandi þetta atriði, þ.e. skip undir þægindafánum sem eru gerð út af íslenskum útgerðaraðilum og eru með hreina íslenska áhöfn. Hvaða lög gilda um þá aðila? Það eru einmitt þau lög sem þjóðfáni þess lands sem er í skut skipsins segir til um. Dæmi er um að nú eru fiskiskip gerð út sem eru frá Belís og þangað verða menn að leita réttar síns. Hins vegar er það alveg óskylt þessum sjómannalögum hvað þau áhrærir vegna þess að ef erlendur aðili er ráðinn á íslenskt skip gilda um hann íslensk sjómanna- og siglingalög. Sá aðili nyti í hvívetna og á að njóta sama réttar og lagaverndar og íslensk sjómannalög og siglingalög kveða á um, alveg eins og um Íslendinga sem eru á skipum undir erlendum fána gilda lög þess lands sem fáninn segir til um.
    Kannski má segja að lítið sé í lagt að fara eingöngu fram á mánaðar uppsagnarfrest. Ég vil benda hv. þm. á það eins og hún kom hér inn á í sambandi við verkafólk að það er rétt að eftir þriggja ára starf er uppsagnarfrestur tveir mánuðir og eftir fimm ár þrír mánuðir en það ræðst af nokkuð flókinni reglu sem að hluta til byggist á því að viðkomandi aðili hafi unnið á sama vinnustað og þá líka að hluta til í sömu starfsgrein.
    Það sem hér er verið að fara fram á er ákaflega skýrt. Sé eigi annað fram tekið um lengd ráðningarsamnings er viðkomandi aðili strax kominn með mánaðar uppsagnarfrest. Það eru þau ákvæði sem gilda varðandi farmenn en eins og ég gat um áðan hafa hásetar á kaupskipum mánaðar uppsagnarfrest en á fiskiskipum eingöngu eina viku. Ég er ekki að fara lengra en ég heyri menn tala um að það sé eðlilegur réttur. Það er nú svo að fyrr á árum kærðu fiskimenn sig ekki um það að hafa lengri uppsagnarfrest. En með þeim breytingum sem orðið hafa á núna í útgerðarrekstri og með þeim breyttu aðstæðum sem orðið hafa vegna kvótakerfisins telja menn eðlilegt að lengri uppsagnarfrestur sé viðhafður. Þá hafa menn einkum miðað sig við þann rétt sem farmenn hafa í dag.
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta mál sé það sem sjómenn hafi haft hug á og samtök þeirra, að uppsagnarfresturinn sé mánuður. Hins vegar tel ég ekkert úr vegi að samgn. sem mun væntanlega fá frv. til umfjöllunar skoði önnur ákvæði sem þegar hafa skapast á vinnumarkaðnum í sambandi við lengd uppsagnarfrests og ég fagna því ef svo væri. Hitt er svo annað mál sem ég hef verulegar áhyggjur af, eins og ég kom hér inn á í upphafi máls míns, og varðar þá aðila sem virðast hafa áhrif á nefndastörf Alþingis þegar fjallað er um einstök lög sem Alþingi á að setja og auðvitað er rétt að aðlaga að nútímanum. Það virðist vera svo og virðist vera nokkuð landlægt hér á landi að löggjafinn setur lög sem fólkið er síðan að laga sig að í stað þess gagnstæða, að lögin séu þess eðlis að þau lagi sig að fólkinu. Ég tel að frv. sé í þá áttina að það sé lagað að fólkinu, lagað að þeim óskum sem fram hafa komið vegna þess að ár eftir ár hefur uppsagnarfresturinn verið ræddur í kjarasamningum og ekki náð fram að ganga nema með þeim breytingum eins og ég gat um áðan að eftir tvö ár hjá útgerð getur sjómaður sótt um það skriflega til útgerðar að uppsagnarfresturinn sé 14 dagar og eftir fjögur ár að hann sé 21 dagur. Því miður hefur þetta tekið allt of langan tíma og ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég vænti þess að samgn. taki þetta mál til skoðunar. Kannski má vera í ræðustólnum með alls kyns yfirboð í sambandi við þetta mál og halda því fram að lítið sé í lagt en ég tel að hér sé nokkuð í lagt miðað við það sem á undan er gengið.