Úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 16:41:01 (540)


[16:41]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu og samræmingu á launakjörum. Ég hygg að flestir geri sér ljóst að kjaramálin hér á landi eru komin í ógöngur. Má þar einkum benda á að launamunur hér á landi er orðinn gífurlegur og virðist gegnum árin hafa farið vaxandi, einnig hitt að lítið virðist þoka í að koma hér á launajafnrétti kynjanna þrátt fyrir ítrekaðar lagasetningar þar að lútandi, alþjóðasáttmála sem við höfum fullgilt og aðgerðir sem reynt hefur verið að grípa til til að sporna við launamisrétti kynjanna. Þessar ógöngur sem kjara- og launamálin eru komin í má fyrst og fremst rekja til þess að hér hefur óáreitt fengið að þróast tvöfalt launakerfi í landinu, annars vegar hið opinbera sýnilega launakerfi sem samið er um í kjarasamningum og hins vegar neðanjarðarkerfið í launakjörum sem byggir á einstaklingsbundnum samningum launþega við vinnuveitendur sína í formi yfirborgana og hvers kyns hlunnindagreiðslna sem fæstir virðast henda reiður á og sem sífellt eykur á launamisréttið, enda ganga slíkar greiðslur að stærstum hluta til þeirra betur settu og í miklu meira mæli til karla en kvenna.
    Það er orðið óþolandi að enginn þekki í raun frumskóg launa- og kjaramála í þjóðfélaginu, sem gerir það að verkum að erfitt virðist að finna leiðir til að auka hlut láglaunafólks í tekjuskiptingunni eða uppræta launamisrétti kynjanna. Þetta tvöfalda launakerfi sem við höfum búið við, reyndar áratugum saman, býður því heim miklu misrétti í þjóðfélaginu og gerir auk þess erfitt um allan raunhæfan samanburð til að finna leiðir til að bæta kjör þeirra verst settu.
    Þó viðmiðanir úr skattframtölum séu ýmsum annmörkum háð þá gefa þau þá mynd að launamunur þeirra hæst- og lægstlaunuðuð geti verið allt að 20--25-faldur. Dreifing atvinnutekna hér á landi á árunum 1986--1990, sem Þjóðhagsstofnun hefur tekið saman, sýnir einnig að hlutur þeirra tekjuhæstu í þjóðfélaginu hefur vaxið, en hlutur meðal- og lágtekjufólks hefur minnkað. Tveir þættir skekkja þó nokkuð þá mynd sem Þjóðhagsstofnun hefur dregið upp af þessu, ef reynt er að meta ráðstöfunartekjur fólks. Í fyrsta lagi eru það áhrif jöfnunaraðgerða hins opinbera á ráðstöfunartekjur eftir skatt og hins vegar mikill skattaundandráttur í þjóðfélaginu, en gera má ráð fyrir að stærsti hluti undanskots í skatti liggi hjá tekjuhærri hluta þjóðarinnar.
    Það alvarlega varðandi þetta tvöfalda launakerfi sem hér ríkir er að hið opinbera hefur í samkeppni við almenna vinnumarkaðinn verið knúið til að taka þátt í þessu tvöfalda launakerfi þar sem stöðuheiti, föst yfirvinna og bílahlunnindi eru m.a. notuð til að bæta upp lág laun sem samið er um í kjarasamningum. Í athugun sem ég beitti mér fyrir að gerð yrði til þess að skoða þetta mál kemur einmitt fram að að stærstum hluta renna þessar aukagreiðslur til karla, en um 90% greiðslnanna koma í hlut þeirra, en um 10% í hlut kvenna hjá hinu opinbera.
    Í raun má segja að Ríkisendurskoðun hafi til að mynda bent á í hvaða ógöngur kjaramálin eru komin hjá hinu opinbera og má þar nefna skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992, en að henni var vikið t.d. í sunnudagsblaði Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag, en þar segir með leyfi forseta:
    ,,Í skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings fyrir árið 1992, sem kom út í október í fyrra, er vikið að launakerfi opinberra starfsmanna. Þar segir m.a.: ,,Á liðnum missirum og árum hefur komið æ betur í ljós að launakerfi ríkisins er að hruni komið. Innan þess þrífast m.a. alls konar aukagreiðslur og fríðindi, svo sem: óunnin yfirvinna, bifreiðahlunnindi, húsnæðisfríðindi, risna, greiðslur fyrir aukastörf, ferðakostnaðarhlunnindi, nefndalaun, stjórnarlaun. Einkum verða þessar aukagreiðslur fyrirferðarmiklar þegar ofar kemur í embættismannakerfi hins opinbera. Má segja að um sé að ræða tvöfalt launakerfi.````
    Hér lýkur tilvitnun í þessa skýrslu yfirskoðunarmanna en í Morgunblaðinu segir, með leyfi forseta: ,,Eftir þessa ádrepu ítreka yfirskoðunarmenn fyrri áskoranir sínar um að fram fari heildarúttekt á hverskonar aukagreiðslum og fríðindum sem ýmsir ríkisstarfsmenn njóta.``
    Því verður að ætla að það sé vilji fyrir því þegar þetta kemur fram hjá yfirskoðunarmönnum og Ríkisendurskoðun að launakerfi hins opinbera sé að hruni komið að þá sé fullur vilji fyrir því að taka á þessu máli sem verður að gerast með þeim hætti að allar launagreiðslur hjá hinu opinbera séu uppi á borðinu og sýnilegar.
    Reyndar var það svo að Kjaradómur tók á þessu máli fyrir sennilega um tveimur árum síðan eins og menn muna en þar var stefnt að því að afnema hið tvöfalda launakerfi sem hefur þróast undanfarin ár en þeim dómi var breytt hér með lögum frá Alþingi.
    Það er einmitt eitt af meginmarkmiðum þessarar þáltill. að hið opinbera hafi frumkvæði að því að fá upp á borðið heildarlaunagreiðslur hjá hinu opinbera, þar með taldar aukagreiðslur í formi fastrar yfirvinnu og annarra greiðslna þannig að stokka megi launakerfið upp á nýtt. Ég tel nokkuð ljóst að meðan kjaramálin í þjóðfélaginu eru í slíkum ógöngum þá muni lítið þoka í að rétta hlut láglaunahópanna eða ná raunhæfum árangri til að uppræta launamisrétti kynjanna. Það má spyrja og kannski hefur enginn svör við því hve stór hluti launamanna er á hinum strípuðu töxtum sem aðilar vinnumarkaðarins deila árlega um við gerð kjarasamninga og hve stór hluti launamanna byggir kjör sín af stærstum hluta á einstaklingsbundnum samningum við vinnuveitendur og hve stór hluti kvenna er á hinum strípuðu hungurtöxtum sem aðilar vinnumarkaðarins semja um og hve stór hluti karla.
    Þeirri till. til þál. sem hér er flutt er ætlað að leiða það m.a. í ljós verði hún samþykkt.
    Það er lagt til að fela forsrh. að skipa nefnd sem hafi það verkefni að gera heildarúttekt á þróun tekju- og eignaskiptingar í þjóðfélaginu sl. tíu ár og jafnframt skal nefndin leggja mat á hvaða leiðir eru best færar til að jafna kjör í þjóðfélaginu og endurmeta störf láglaunahópanna.
    Hér skal tekið fram að nefndinni er einungis ætlað að leggja mat á hvaða leiðir séu best færar en vitanlega er það síðan á hendi aðila vinnumarkaðarins að vinna úr því hvernig það yrði best gert. Einnig

væri þá hægt að sjá ef slíkar launagreiðslur fengjust upp á borðið og heildarlaunakjör hvaða jöfnunaraðgerðum væri raunhæft að beita af hálfu stjórnvalda til að ná meiri jöfnuði í lífskjörum. En markmiðið er einmitt að auka hlut láglaunahópanna í tekjuskiptingunni og stuðla að jafnrétti kynjanna í launamálum.
    Í þeirri þáltill. sem ég mæli hér fyrir er kveðið á um það í sjö liðum að hverju þessi úttekt skuli miða og vil ég lauslega hlaupa á því, virðulegi forseti. Það er að skoða í fyrsta lagi dreifingu atvinnutekna eftir atvinnugreinum og starfsgreinum eins og kostur er, kyni og tekjuhópum annars vegar og launatöxtum, yfirborgunum, hlunnindagreiðslum og öðrum greiðslum svo og eftir kyni og tekjuhópum.
    Þá skal safna upplýsingum um þróun launaskriðs eftir því sem kostur er milli starfsgreina og á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera hins vegar. Ég geri mér vissulega ljóst að það er ekki hlaupið að því að fá slíkar upplýsingar og vel má vera að ekki sé hægt að nálgast þær að fullu og öllu í þeirri statistik sem við höfum yfir að ráða en hér er um svo brýnt úrlausnarefni að ræða að komi í ljós að ekki er hægt að svara því sem hér er um spurt sem þó er grundvallaratriði til að losa okkur út úr þeim ógöngum sem kjaramálin eru komin í þá verður einfaldlega að bæta þar úr þannig að hægt verði að nálgast slíkar upplýsingar.
    Það er spurt líka um upplýsingar um launagreiðslur hjá hinu opinbera, skipt eftir kyni, dagvinnu, fastri yfirvinnu og annarri yfirvinnu, bílagreiðslum og öðrum hlunnindagreiðslum. Slíkar upplýsingar ætti að vera hægt að fá hjá ríkisvaldinu sem ég tel mjög mikilvægar til að leggja mat á hvaða leiðir er hægt að fara til að breyta tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu.
    Í fjórða lagi er spurt um samanburð á launum og öðrum kjörum sambærilegra láglaunahópa eða starfsstétta er starfa hjá hinu opinbera annars vegar og á almenna markaðinum hins vegar.
    Til að meta lífskjör og afkomumöguleika er einnig spurt um neysluútgjöld einhleypra, einstæðra foreldra og vísitölufjölskyldunnar, skipt eftir tekjuhópum. Þar skal m.a. koma fram hlutfall matarútgjalda í heildarútgjöldum annars vegar og útgjöld vegna rafmagns og hita hins vegar, skipt eftir landshlutum. Þessi útgjöld eru víða mjög mikil og vega þungt í lífskjörum fjölskyldna úti á landsbyggðinni.
    Í sjötta lagi er spurt um þróun á hlut launa í framleiðslukostnaði fyrirtækja skipt eftir atvinnugreinum. Upplýsingar sem ég hef frá 1988 benda til þess að hlutur launa í framleiðslukostnaði fyrirtækja hafi lækkað verulega eða um 7--8 milljarða króna. Það er eðlilegt að fá fram hvernig hlutur launa í framleiðslukostnaði fyrirtækja hefur þróast sl. 10 ár skipt eftir atvinnugreinum.
    Sú staðreynd er einkar athyglisverð þegar verið er að ræða launamálin að fyrirtæki kvarta oft yfir því hvað launin og launakjörin séu þung í rekstri fyrirtækjanna en stjórnvöld hafa látið fara frá sér bækling þar sem það er talinn helsti ávinningur fyrir erlenda fjárfesta hvað launakostnaður hér á landi sé lítill samanborið við önnur lönd. Í bæklingi sem markaðsskrifstofa iðnrn. og Landsvirkjun hafa gefið út kemur fram að af 13 löndum sem þar eru tilgreind eru laun og launatengd gjöld lægst á Íslandi. En til samanburðar eru þar tekin Þýskaland, Svíþjóð, Noregur, Sviss, Belgía, Danmörk, Holland, Ítalía, Finnland, Frakkland, Japan, Bandaríkin og Bretland og í öllum þessum löndum eru bæði laun og launatengd gjöld hærri en á Íslandi en algengt er að þau gjöld séu 50--85% hærri í þessum löndum. Þess er einnig sérstaklega getið þó launakostnaður sé svo lítill á Íslandi samanborið við þessi lönd þá séu einnig fjarvistir frá vinnu hvergi færri ef undan er skilið Japan.
    Mér finnst þetta einkar athyglisvert þegar verið er að ræða launin og kjör á Íslandi.
    Í sjöunda og síðasta lagi þá gerir úttektin ráð fyrir að leiða í ljós þróun á eignum skipt eftir tekjuhópum og kyni annars vegar og fasteignum, ökutækjum, peningalegri eign og hreinni eign hins vegar.
    Virðulegi forseti. Ég vil í lokin fara nokkrum orðum um launamisrétti kynjanna en mikilvægur þáttur þessarar tillögu eru aðgerðir sem stuðla betur að því að ná fram launajafnrétti kynjanna. Allar kannanir sem gerðar hafa verið á umliðnum árum benda til að lítið hafi þokað í að jafna hlut kynjanna í launamálum og síðustu kannanir kjararannsóknarnefndar eru sláandi en þær gefa til kynna að á umliðnum árum hafi dregið mjög í sundur með körlum og konum, ekki síst þeim sem vinna við skrifstofu- og verslunarstörf.
    Einnig virðist svo vera að mjög aukin menntun kvenna á umliðnum árum hafi ekki skilað sér nægilega til að jafna launakjörin því þó að borin séu saman hefðbundin kvennastörf og hefðbundin karlastörf sem krefjast sambærilegs námstíma þá virðist vera gífurlegur launamunur engu að síður.
    Ég tel nokkuð ljóst að sú aðgerð sem farið var í á árinu 1988 að frumkvæði Jafnréttisráðs og félmrn. hafi skilað nokkrum árangri en þar er ég að vitna til jafnréttisáætlunar sem ríkisstofnanir og ráðuneyti settu sér. Ég vil einnig nefna að í framkvæmdaáætlun sem ráðuneytin settu sér til fjögurra ára var félmrn. falið að beita sér fyrir úttekt á nokkrum ríkisstofnunum þar sem sérstaklega yrðu athuguð kjör karla og kvenna, þ.e. laun eða aðrar greiðslur og fríðindi innan þeirra.
    Ég veit að niðurstaða úr þessu verkefni mun birtast nú á allra næstu dögum þar sem fram eiga að koma heildarlaunagreiðslur þar sem sýnilega verða uppi á borðinu innan þessara stofnana heildarlaun, ekki bara beinar launagreiðslur heldur önnur launakjör líka og ég er sannfærð um að sú niðurstaða, sú úttekt sem verið er að gera á þessum fimm stofnunum mun verða mikilvægt innlegg inn í umræðu um hvaða aðgerðum hið opinbera getur beitt til að ná fram jafnrétti í launamálum kynjanna.
    Ég vísa líka til þess að í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar átti að fara fram kerfisbundið mat á störfum ríkisstarfsmanna í því skyni að framfylgja 4. gr. jafnréttislaga sem kveður á um að greiða skuli

konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og taka átti tillit til reynslu og þekkingar sem starfsmenn hafa öðlast, t.d. við ólaunuð umönnunar-, uppeldis- og heimilisstörf, en öllum atvinnurekendum ber skylda til að framfylgja ákvæðum 4. gr. jafnréttislaganna. Með þessari ályktun var lagt fyrir stjórnvöld að þau framfylgdu þessu ákvæði.
    Ég tel mjög mikilvægt að þetta ákvæði verði markvisst kynnt í framkvæmd sem gæti verið liður í því sem hér er kveðið á um í þessari till. til þál. sem tekur til fjölmargra annarra þátta.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða þessi mál frekar. Ég tel að hér sé um mikilvæg atriði að ræða til þess að við getum grisjað þann frumskóg sem kjaramálin eru komin í. Þetta hefur oft og iðulega verið rætt hér á Alþingi og kannski hefur ekki nægjanlega mikill árangur náðst miðað við þá umræðu sem hefur orðið um það. Það vita allir um þetta tvöfalda launakerfi en það virðist erfitt að taka á því máli, en ég held að byrjunin hljóti að vera að hið opinbera hafi ákveðið frumkvæði varðandi það að gera úttekt á heildarlaunagreiðslum hjá hinu opinbera.
    Ég tel að þetta sé forsenda fyrir því, eða a.m.k. veigamikil, að hægt sé að jafna hér tekjuskiptinguna í landinu og beita jöfnunaraðgerðum hjá hinu opinbera sem og að stuðla að raunhæfum aðgerðum til að bæta hlut láglaunahópanna og stuðla að launajafnrétti kynjanna.