Úttekt á tekju- og eignaskiptingu í þjóðfélaginu

14. fundur
Þriðjudaginn 18. október 1994, kl. 17:24:01 (545)

[17:24]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég get nú ekki orða bundist þegar ég hlustaði hér á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur og ræða m.a. um hagfræðikenningar, keynesisma o.s.frv. og hún sagði raunverulega að mér fannst allt sem segja þarf. Það er auðvitað alveg fáránlegt að ætla sér að skapa örbirgð jafnvel með því að minnka peninga í eign fólksins, að það sé hægt nokkurn tíma að gera þjóðfélagið auðugt ef það má aldrei nota hendur sem fá ekki vinnu. Ég held að þetta sé uppistaðan í þessum kenningum sem hv. þm. kynnti sér rækilega fyrr á árum og ég líka. Ég held að allir Íslendingar a.m.k., svona lítil þjóð sem á að geta nokkurn veginn rakið leiðir peninganna og aflsins, auðmagn má kalla það ef mönnum sýnist, til þess að allt fólkið, ekki bara einn lítill partur af því sem er auðugur, allt of auðugur. Það er þetta sem við þurfum að geta gert miklu betur en við höfum gert a.m.k. að undanförnu. Þar hefur auðurinn aukist og fátæktin líka eins og liggur í augum uppi.
    Ég ætlaði satt að segja ekki að tala núna en mér fannst að þarna væri rétt að árétta það sem þingmaðurinn sagði og líka fyrrv. ráðherra, að ég held að menn séu kannski meira sammála en þeir virðast vera. Og við skulum a.m.k. reyna að gera þessa örlitlu þjóð og örlitlu flokka að mannlegum flokkum.